Kylfukast

Kylfukast: Hugsað upp á nýtt !
Frá 15.flöt á Grafarholtsvelli.
Fimmtudagur 23. október 2014 kl. 07:49

Kylfukast: Hugsað upp á nýtt !

Fækkun golfiðkenda um allan heim á undanförnum misserum hefur sem gefur að skilja valdið áhyggjum innan golfheimsins. Tvennt er helst nefnt til sögunnar sem aðal orsakavaldar. Tími og peningar. Golf tekur of langan tíma. Golf er of dýrt.

Látum leikhraðann liggja milli hluta að þessu sinni. Hann einn og sér er efni í nokkur Kylfuköst.

Í samanburði við önnur lönd má segja að félagsgjöld í golfklúbbum á Íslandi séu lág. Á móti kemur að leiktímabilið hjá okkur er frekar stutt. En er það réttur mælikvarði að miða félagsgjöld í íslenskum golfklúbbum við félagsgjöld í golfklúbbum í öðrum löndum? Ég hef lengi verið fylgjandi því að þeir greiði mest sem leika mest. Það er náttúrlega klárt sjálfselsku sjónarmið því ég hef ekki leikið mikið golf á aðalvöllum GR undanfarin sumur.

Á móti kemur að ég hef leikið fjöldann allan af hringjum á Grafarkotsvelli með syni mínum sem er 11 ára. Aðgangurinn að þeim velli finnst mér mjög dýrmætur. Af félagsgjaldinu mínu á þessum tveimur árum hefur Golfsambandið fengið í sinn hlut um 8.000 krónur.

Innan golfklúbbanna er það gjald kallað GSÍ skattur en hann er greiddur af hverjum félagsmanni sem er 16 ára og eldri. Þessi gjaldstofn er ríflega helmingur af tekjum Golfsambandsins ef ég man rétt. Fyrir það fá félagsmenn aðgang að golf.is og EGA forgjafarkerfinu. Til að hafa gilda EGA forgjöf þarf félagsmaður að skila 4 hringjum inn til forgjafar á hverju leiktímabili. Síðast þegar ég vissi var einungis helmingur félagsmanna GR með gilda EGA forgjöf.

Nánast til alilr golfklúbbar á Íslandi eru reknir eftir sömu formúlunni. Félagsgjald þar sem GSÍ aðild er innifalin og ótakmörkuð leikheimild á velli klúbbsins. Í mínum klúbbi hefur félagsstarf farið mjög halloka. Hvort sem þar er um að kenna áhugaleysi stjórnenda klúbbsins eða áhugaleysi félagsmanna get ég ekki dæmt um. Hitt veit ég fyrir víst að félagsstarf blómstrar innan hinna fjölmörgu vinahópa félagsmanna klúbbsins.

Erum við komin að þeim tímapunkti að hlutverk golfklúbbsins verði eingöngu að sjá um rekstur golfvallarins? Ég geti valið um að kaupa mér 10 hringja kort á Grafarholtsvelli sem gildir bara fyrir hádegi eða kaupa mér ótakmarkaðan aðgang. Kjósi svo að vera í Golfklúbbi Fram eða bara mínum eigin golfklúbbi. Greiði svo skattinn minn til GSÍ sjálfur eða bara alls ekki. Kjósi þannig að vera utan Golfsambandsins og hafa þar með ekki gilda EGA forgjöf.

Eftir hverju er fólk að sækjast þegar það skráir sig í golfklúbb? Félagsstarfinu? Forgjöfinni? Áskriftinni að Golf á Íslandi? Eða bara eingöngu aðgangi að vellinum? Er eitthvað því til fyrirstöðu að fjórir eða fimm golfklúbbar hafi aðgang að golfvöllum sem nú eru golfvellir Golfklúbbs Reykjavíkur? Eða tveir golfklúbbar hafi aðgang að Hvaleyrinni í Hafnarfirði?

Víða á Bretlandseyjum er þetta tvennt aðskilið. Aðgangur að golfvelli er eitt, félagsaðild í golfklúbbi er annað. Mun iðkendum fjölga ef við förum þessa leið?

Kominn tími á skoðanakönnun.
Með golfkveðju, Margeir Vilhjálmsson.



Skoðun pistlahöfunda eða efni aðsendra greina sem birtast á kylfingur.is er ekki skoðun ritstjórnar: