Kylfukast

Kylfukast: Fúll á (meistara)móti
Miðvikudagur 8. júlí 2015 kl. 16:45

Kylfukast: Fúll á (meistara)móti

Nú er hátið allra alvöru kylfinga. Meistaramótin. Það er ekki til skemmtilegri tími á golfsumrinu. Loksins fá allir þeir kylfingar sem alla daga spila Stableford höggleik að spila alvöru höggleik. Telja öll höggin. Guð minn almáttugur. Keppnisstressið. Þrír í holli. Hvernig voru aftur golfreglurnar? Má maður ekki droppa inn á flöt ef slegið er í vatn? Er metrinn ekki gefinn? Eða var það fetið? Þarf virkilega að klára allar holurnar?
 
Kylfingar með 10 í forgjöf ná skyndilega ekki að leika á sínum rétt um 80 höggum, heldur sprengja í 90 og þegar verst lætur fara yfir 100 kallinn. Mættir í póstnúmer.
 
Framkvæmdastjóri GKG fékk það óþvegið frá nokkrum meistaraflokkskylfingum í meistaramóti klúbbsins í síðustu viku. Sumir lágforgjafarkylfingar vita nefnilega að þegar illa gengur er það ekki þeim sjálfum að kenna. Ýmist er það völlurinn, veðrið eða búnaðurinn. 
 
Starfsmenn golfklúbbanna leggja mikið á sig svo meistaramótin séu sem glæsilegust. Fjölmargir félagsmenn sleppa þátttöku en vinna þess í stað sjálfboðavinnu sem eftirlitsmenn, framverðir, dómarar eða aðstoða á annan hátt við framkvæmd mótsins. Fyrir það ber að þakka.
 
Njótum vikunnar. Fögnum með þeim sem gengur vel. Lítum í eigin barm ef illa gengur og gerum betur á morgun. Ekki vera fúll á (meistara)móti.
 
Góða skemmtun.
 
Með golfkveðju,
 
Margeir Vilhjálmsson