Kylfukast

Kylfukast: Drama Valderrama!
Mánudagur 30. júlí 2012 kl. 18:31

Kylfukast: Drama Valderrama!

Það eru fjölmargir sem eiga hamingjuóskir skilið fyrir Íslandsmótið í golfi sem lauk á Strandarvelli í gær. Golfklúbburinn Hella, með orkuboltann Óskar Pálsson í broddi fylkingar.  Frábær völlur, frábært veður allt sem sneri að klúbbnum var til mikillar fyrirmyndar. Golfsambandið og aðalstyrktaraðili þeirra fyrir umgjörð, sem var hin glæsilegasta. Kylfingur.is fyrir frábæra umfjöllun á vefnum.  Fjöldi myndbanda og skemmtileg viðtöl við kylfinga í leikslok á hverjum degi.

Golfklúbbur Reykjavíkur, 27 ára þrautagöngu er nú lokið.
Haraldur Franklín og Valdís Þóra Íslandsmeistarar.  
Og svo að sjálfsögðu maður mótsins, Kristinn Óskarsson.  Frábær frammistaða og sýnir okkur að það er von fyrir helgargolfarana, þrátt fyrir að stunda fulla vinnu samhliða golfinu.

En á þessu öllu er líka önnur hlið.  Það er tvennt, eða kannski í raun þrennt sem veldur mér verulegum áhyggjum að loknu þessu glæsilega Íslandsmóti og finnst mér rétt að draga þau mál upp þótt það kunni að vera dónaskapur nú mitt í lok allrar gleðinnar.

1. Íslandsmótið í golfi var fyrst haldið með núverandi fyrirkomulagi í Grafarholti árið 2001.  Það var ekki vinsæl ákvörðun að breyta fyrirkomulagi „Landsmóts í golfi“.  Síðasta Landsmótið var leikið á Akureyri, Sauðárkróki og Húsavík árið 2000.  Mótið var flokkaskipt og vinsældir þess slíkar að ekki var talið mögulegt að áfram yrði haldið.
Íslandsmót í golfi varð raunin, þar sem aðeins 150 forgjafarlægstu kylfingarnir fengu þátttökurétt.  Nú hefur mótið verið haldið með þessu fyrirkomulagi í 12 skipti og því miður hefur mótið ekki náð að verða sá vettvangur sem vonast hafði verið til fyrir golfíþróttina.
Ég var mótsstjóri Íslandsmótsins árið 2009 í Grafarholti og setti þá fram ákveðna hugmyndafræði.  Markmiðið snerist um það að fá 10.000 áhorfendur í Grafarholtið, til að fylgjast með okkar bestu kylfingum leika á því móti sem markaði hápunkt golfsumarsins.  Það markmið náðist ekki, en talið var í heildina að um 5.000 manns hefðu lagt leið sína í Grafarholtið mótsdagana.   Árið 2010 var mótið haldið í Kiðjabergi, 2011 í Leiru og nú 2012 á Strandarvelli á Hellu.  Umgjörð mótsins hjá öllum þessum klúbbum var til mikillar fyrirmyndar, vellirnir frábærir, það eina sem vantaði, líkt og nú voru áhorfendur.  

Ég vil því leggja það til við golfhreyfinguna á Íslandi að hún taki það til alvarlegrar skoðunar að halda Íslandsmótið í golfi næstu 5 árin, eingöngu á höfuðborgarsvæðinu, hjá GR, GK, GKG og GO.  Byggja upp áhorfendamenningu í kringum Íslandsmótið í golfi.  Þegar mótið hefur unnið sér fastan sess meðal kylfinga sem viðburður til að mæta á og horfa á golf, þá  má fara að líta út fyrir höfuðborgarsvæðið.

2. Staða afreksgolfs á Íslandi.  Ég var þeirrar skoðunar áður en Íslandsmótið hófst að við ættum fjölda gríðarlega frambærilegra kylfinga sem myndu leika sér að Strandarvelli.  Staðalskor hjá fjölda þeirra yrði í kringum 68 högg og sigurskorið yrði í kringum -16.  Frekja í mér?  Veit það ekki.  En eftir að hafa fylgst með Íslandsmótinu og séð útreiðina sem íslenska landsliðið fékk á Hvaleyrinni, þá hef ég nú fyllst miklum efasemdum.  Nýverið var stofnaður glæsilegur styrktarsjóður fyrir okkar bestu kylfinga – Forskot.  Frábært framtak.  En hvaða kröfur eru gerðar til þeirra kylfinga sem þar hafa hlotið styrk?  Hvaða kröfur eru gerðar til þeirra afrekskylfinga sem eru í afrekshópi GSÍ?  Mér finnst alveg óásættanlegt að afrekskylfingar þessa lands, sem gera ekkert annað en að leika golf láti körfuboltadómarann Kristinn Óskarsson vinna sig í 72 holu golfmóti.  Með fullri virðingu fyrir Kidda, sem er maður mótsins að mínu viti, þá held ég að nokkrir tugir afrekskylfinga þurfi að skoða sín mál.  Ég veit alveg að kylfingar geta átt „slæm“ mót.  En ég bara trúi því ekki að svona margir afreks-kylfingar geti átt slæmt mót í sama mótinu.  

3. Bein útsending  á Stöð 2 Sport.  Beinar útsendingar hafa tíðkast frá lokadögum Íslandsmótins frá árinu 1998, en þá var fyrst sýnt beint úr Leirunni. Frábært framtak hjá GSÍ og mikilvægt fyrir golfið.
Það var mjög sérstakt á sunnudaginn að Stöð 2 Sport sýndi á undan Íslandsmótinu, viðtalsþátt David Feherty við goðsögnina Ken Venturi, en Ken var einn virtasti golfgreinandi í heimi og lýsti golfi í sjónvarpi í 35 ár.  Sannur fagmaður og hafði frá mörgu skemmtilegu að segja úr golfinu.  
Mér varð stöðugt hugsað til Ken Venturi eftir að bein útsending frá Íslandsmótinu hófst.  Það tók svo steininn úr þegar 9 ára sonur minn spurði, „Pabbi, heldur þessi kall í sjónvarpinu að hann sé eitthvað fyndinn?“.   Það má vel vera að ég taki golf aðeins of alvarlega, en mér finnst 5 aura brandara flaumur ekki alveg eiga heima með í lýsingu á Íslandsmótinu í golfi.

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson