Kylfukast

Kylfukast: Blindir fái Sýn
Þriðjudagur 25. ágúst 2015 kl. 10:42

Kylfukast: Blindir fái Sýn

Nú um helgina lauk hinu formlega keppnistímabili afrekskylfinga á Íslandi. Eftir frekar þurrt sumar þurftu kylfingar á Eimskipsmótaröðinni að leika fyrsta hringinn á Nýherjamótinu í syndaflóði á Urriðavelli. Völlurinn sýnist mér að öðrum ólöstuðum vera sá besti á landinu í dag. Við eigum metfjölda góðra keppniskylfinga sem eiga þann draum að komast í atvinnumennsku. Ég þekki flest nöfnin, en kannast því miður ekki við andlitin.
 
Uppúr síðustu aldamótum voru gerðir sjónvarpsþættir um hvert einasta mót á íslensku mótaröðinni. Mótaröðin bar þá nafn Toyota og Björn Víglundsson, sem nú er formaður GR, var þá markaðsstjóri Toyota og helsti prímusmótor að lyfta mótaröðinni á hærra plan. Á þessum árum varð til umgjörð með auglýsingaskiltum, kaddívestum, skortöflum og öðru sem áður hafði eingöngu þekkst erlendis. Þættirnir voru sýndir á hinni fornfrægu íþróttastöð Sýn og síðar Stöð 2 sport. Mótaröðin flutti yfir til RÚV en hvarf síðan af sjónarsviðinu í skiptum fyrir magasín þátt sem ber nafnið Golfið.
 
Mótaraðarþættirnir voru vinsælt sjónvarpsefni sem héldu utan um íslenska keppnissögu. Sýndu andlit okkar bestu kylfinga og viðtöl við þá sem báru sigur úr býtum. Voru góð auglýsing fyrir okkar bestu kylfinga, karla og konur til jafns. Til viðbótar gáfu þættirnir ágætis upplýsingar um ástand vallanna sem leikið var á. Þessir þættir voru framleiddir með stuðningi frá GSÍ ásamt því sem sýnt var beint frá Íslandsmótinu í höggleik.
 
Við höfum Golfstöðina sem býður uppá frábært úrval af erlendu keppnisgolfi en það innlenda hvarf fyrir þremur árum í skiptum fyrir magasín þátt á RÚV. Sjónvarpsstöðin Hringbraut og Kylfingur.is (ÍNN) gera einnig mjög góða magasín þætti um golf. Stöð 2 sport býður uppá Pepsi deildina og Pepsi mörkin sem gera knattspyrnunni ítarleg skil, meira segja eru nú í boði sýningar frá 1. deildinni í knattspyrnu. 
 
Golfíþróttin þarf á því sama að halda. Mótaröðin er með góða styrktaraðila þar sem Eimskip fer fremst í flokki. Umfjöllun um afreksgolf í sjónvarpi er því miður af skornum skammti. Mótaröðina hefur sett niður eftir að þáttagerðinni var hætt. Ungir og efnilegir kylfingar þurfa að fá að sjá fyrirmyndirnar í sjónvarpi. Fyrir þessu virðast forystumenn golfhreyfingarinnar vera alveg blindir. Þeir þurfa sýn.
 
 
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson