Golfklúbburinn 1
Ég áttaði mig á því fyrir nokkrum dögum að á næsta ári verða 25 ár síðan ég hóf að leika golf, þá þrettán ára gamall. Eftir allan þennan tíma er eitt farið að sitja í mér. Ég hef aldrei farið holu í höggi. Ég hef fengið fjölmarga erni í gegnum tíðina. Bæði á par 4 og 5 holum. Þeir eru jafngildir holu í höggi í höggleik. Svo er til Albatross, sem er þrír undir pari á einni holu – hann hefur aldrei fengið sama virðingarsess og hola í höggi.
Eiginlega er það lygi þegar ég segi að þetta sé farið að sitja í mér. Satt að segja pirrar það mig orðið allverulega. 25 ár. Eigum við ekki að segja 10 hringir að meðaltali á ári. 4.500 holur, þar af má gera ráð fyrir að séu a.m.k. 1.200 par 3 holur. Nýtingin 0%. Eftir rúmlega 1.200 tilraunir. Ég hef horft uppá smábörn, öldunga sem varla geta gengið, menn sem ekki einu sinni eiga golfsett og ég veit ekki hvað og hvað skella boltanum beint í holu af 120 – 180 metra færi. Nokkrir íslendingar eru búnir að fara holu í höggi svo oft að það kemur þeim nánast til ekkert á óvart að það gerist. Þeir gera eiginlega ráð fyrir því að fara holu í höggi svona annað hvert ár. Það eru til sögur af kylfinum sem hafa slegið með 5 tré lengst út í Bergvík, boltinn skoppað tvisvar í fjörunni, uppá flöt og ofaní. Aðrir hafa slæsað upp í brekkuna hægra megin við 10. flötina á Hvaleyrinni, fengið eitthvað undrahopp og þaðan beint ofaní. Aðrir hafa öskrað bölbænir á eftir boltanum sem stefnir útaf vellinum og verið bænheyrðir, beint í holu. Ótrúlegt. Aðrir hafa gert þetta með glæsibrag eins og að slá fallegt högg inná miðja flöt og boltinn rúllar ofan í á glæsivöllum eins og Old Course á St. Andrews. Það er hæfni, en ekki grís. En það er engin einkunnagjöf fyrir glæsilegheit á holu í höggi. Bara eitt högg, beint í holu. Engu skiptir hvað gerist í millitíðinni, eða hvar boltinn hefur viðkomu á leiðinni.
Það sem er svo skemmtilegt við þetta til viðbótar er að vel er haldið utanum þessi mál hér á landi. Til er klúbbur „Einherja“ en svo kallast þeir sem hafa farið holu í höggi. Þeir halda með sér eitt golfmót á ári og fá viðurkenningu fyrir að hafa farið holu í höggi.
Ég hef velt þessu aðeins fyrir mér og komst að því að tveir kostir væru í stöðunni. Að segja öllum vinum mínum að ég hefði í raun farið holu í höggi. Það hafi verið árið 1989, ég hafi bara gleymt því, en mundi það allt í einu núna um daginn. Hitt er að stofna klúbb fyrir þá sem ekki hafa farið holu í höggi og geta huggað hvern annan yfir óförunum. Þar sem hið fyrrnefnda er illframkvæmanlegt og enginn vill lifa í lygi, þá er ekkert annað að gera en að stofna Golfklúbbinn 1 er fyrir þá sem aldrei hafa farið holu í höggi. Ég auglýsi hér með eftir þjáningarbræðrum og systrum sem vilja gerast stofnaðilar. Markmið þessa golfklúbbs verður að reyna losna við eins marga félagsmenn og hægt er á hverju ári. Samgleðjast þegar þessum mjög svo merkilega áfanga að fara holu í höggi er náð. Félagsgjald verður í lágmarki og mun ganga til að greiða kostnað við pokamerki sem félagsmenn geta borið stoltir á pokanum sínum þangað til þeir fara holu í höggi, þá verður að skila merkinu til klúbbsins og viðkomandi félagsmanni verður vikið úr klúbbnum. Með sæmd. Klúbburinn mun halda árlegt mót, þar sem leikinn verður snærisleikur. Valin verður besta „næstum því hola í höggi ársins“, boðið uppá „tryggingasjóð“ til kaupa á áfengi fyrir þá sem þurfa að blæða vegna glæsihöggsins. Svo má jafnvel setja upp árlega keppni gegn „Einherjum“, þar sem virkilega verður úr því skorið hvort að hæfni eða lukka ráði því hvort kylfingar fara holu í höggi, eður ei. Áhugasamir geta skráð sig á [email protected].
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson