Golf er íþrótt fyrir gamla karla
Ég hef oft lent í þeirri stöðu að þurfa verja golfíþróttina fyrir fólki sem þekkir hana ekki. Sérfræðingum sem allt þykjast vita um golf af því þeir keyrðu einu sinni framhjá golfvelli á Florida. Tala svo um hvernig eigi að skjóta kúlunni hingað og þangað. Eða eins og einn þeirra sagði einu sinni á 1. teig: "Ég þarf að míga áður en ég skýt". Byrjandi. Það að tala um að skjóta kúlu, kemur strax upp um fólk. Veit ekkert um golf.
Einn góður vinur minn segist byrja í golfi þegar hann sé hættur að geta stundað kynlíf. Hann hefur haft hljótt um sig eftir að upp komst um nýjustu afrek besta kylfings heims. Golf auki í raun svo kynlífsgetuna að í verstu tilfellum þurfa kylfingar hreinlega að sækja meðferð, sér til lækningar. Þetta má nú líka kannski kalla að túlka hlutina sér í hag.
Fjölmargir sem ekki stunda golf halda því oft fram við mig að golf sé íþrótt fyrir gamla karla. Þetta séu ekkert nema gamlir karlar, sem hafi ekkert annað að gera en að hanga úti á golfvelli. Að leika einn hring taki allan daginn. Ég hef sótillur varið mína góðu íþrótt og ekki sparað hrósyrðin. Þetta sé ein af fáum íþróttum sem hægt sé að stunda alveg frá því maður fer að geta gengið og fram á grafarbakkann. Golfið brúi kynslóðabilið, einn golfhringur sé 10-12 km. göngutúr og ég veit ekki hvað og hvað. Það væri efni í heila ritgerð.
Þegar ég las á síðasta Golfþingi, Tölfræði 2009 sem gefin var út af GSÍ kom í ljós að sjálfskipuðu golfsérfræðingarnir sem vita ekki hvernig kylfa á að snúa og kalla hana jafnvel prik telja þá kannski líka þá sem orðnir fimmtugir, gamla. Í tölfræðinni kemur í ljós að af þeim 15.500 kylfingum sem eru skráðir í GSÍ, eru 4.300 karlar sem eru 50 ára og eldri. Konur á sama aldri eru 2.300. Kylfingar innan GSÍ sem eru 50 ára og eldri eru því alls 43% af heildinni. Kylfingar sem eru 22-49 ára, eru jafnmargir og þeir sem eru 50 ára og eldri eða einnig 43% af heildinni. 14% kylfinga eru svo 21 árs og yngri. Það verður því miður seint sagt að golf sé íþrótt barna og unglinga. En þau hafa þá allavega eitthvað til að hlakka til, þegar þau hafa slitið barnsskónum.
Einhverjir gætu litið á þessa tölfræði og sagt að hér væri komin fram sönnun þess að golf væri að lang mestu leyti fyrir gamalt fólk. Því má spyrja: “Hvað er það að vera gamall?”
Þegar ég var á framhaldskólaaldri fannst mér þeir sem voru rúmlega þrítugir vera að nálgast það ískyggilega að komast á grafarbakkann. Eiginlega bara vera orðnir frekar gamlir. Nú þegar ég er orðinn svona rétt rúmlega þrítugur finnst mér ég bara ekkert gamall og eiga alveg töluvert langt í það. En það er engin skilgreining í því. Meira bara svona tilfinning.
Eftir mikla rannsóknarvinnu hef ég komist að niðurstöðu um hvað það er að vera gamall. Skilgreiningin er mjög einföld: "Gamall er sá einstaklingur sem ekki kemst 9 holu golfhring, jafnvel þó á golfbíl sé". Þessa skilgreiningu ættu kylfingar að sameinast um. Þegar einhver vanviti heldur því svo fram að golf sé eingöngu íþrótt fyrir gamalmenni, þá verði svarið einfalt: "Nei, fólk er fyrst orðið gamalt, þegar það getur ekki leikið golf".
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson