Golf á Íslandi
Fjörugar umræður hafa átt sér stað á spjallinu undanfarna daga um tímaritið Golf á Íslandi. Það er rétt að þeir sem ekki vita hafi það í huga að ritstjóri tímaritsins er náfrændi minn ef einhverjum finnst ég vera hlutdrægur í umfjölluninni, þá var ég farinn að rita greinar í blaðið löngu áður en hann varð ritstjóri þess og hef ég því nokkrar taugar til blaðsins. Golf á Íslandi hefur verið gefið út í fjöldamörg ár en á næsta ári fagnar blaðið 20 ára útgáfuafmæli.
Golf á Íslandi er dreift í um 15.000 eintökum, eitt blað fer inn á hvert golfsýkt heimili. Það gerir Golf á Íslandi að einu útbreiddasta tímariti landsins, tímariti sem aðrar íþróttagreinar öfunda GSÍ mjög af. Blaðið er GSÍ til mikils sóma og er þar Páli fyrir að þakka. Menn verða að fá að eiga það sem þeir eiga. Því miður virðist ekki vera markaður til útgáfu á golftímariti í áskriftasölu, þrátt fyrir nokkrar ágætar tilraunir á undanförnum árum.
Þegar skammast er yfir efnistökum í blaðinu væri kannski eðlilegra að líta sér nær. Hversu margir klúbbar senda inn greinar til blaðsins um viðburði sem þeir hafa staðið fyrir? Ótrúlega stór hluti frétta-/blaðamennsku gengur út á það að vinna úr innsendu efni. Eru kannski einhverjir sem halda að Fjölnir Þorgeirsson sendi ekki inn greinar um sjálfan sig í Séð og heyrt? Haldiði að Golf á Íslandi hafi sent blaðamann á Evrópumót eldri kylfinga í Ungverjalandi. Nei, LEK menn eru þar að standa sig og vekja athygli á sínu starfi. Kennsluþættirnir eftir Úlfar Jónsson eru góðir. Þeir eru í blaðinu því hann er sá eini sem nennir að búa þá til. Vel gert Úlfar. Pistlarnir eru einnig birtir á heimasíðu hans, www.golfkennsla.is. Hann notar blaðið til að koma sjálfum sér á framfæri.
Af hverju er verið að sakast við þá sem skrifa efni í blaðið? Væri ekki nær lagi að skoða hverjir eru ekki að skrifa efni í blaðið? Lítum til klúbbanna. Hvaða klúbbar senda frá sér efni til birtingar í blaðinu? Af hverju hefur hver klúbbur ekki það á markmiðaskrá sinni að senda inn eina síðu af efni í hvert tölublað GÁÍ? Þannig myndu fyllast 60 síður af áhugaverðu efni úr öllum áttum. Af hverju sendir Gunnar Hreiðarsson ekki inn kennsluþátt í blaðið til að koma sjálfum sér á framfæri sem golfkennara? Ef Gunnar myndi nota helming þess tíma sem hann notar til að skrifa á spjallið í að skrifa kennslugreinar í Golf á Íslandi, þá væri til kennsluefni í öll tölublöð næsta árs. Hvar eru greinar frá samtökum golfvallastarfsmanna um golfvallaviðhald eða röksemdafærslur fyrir nauðsyn þess að loka golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu fyrr en golfvöllum á norðurlandi. Hvar eru greinar frá samtökum atvinnukylfinga. Er ekkert að gerast hjá þeim? Af hverju senda ekki þeir sem sitja öll kvöld á spjallinu og naga skóinn af þeim sem eitthvað nenna að gera frekar inn uppbyggjandi og skemmtilegar greinar í Golf á Íslandi og fá þær birtar undir nafni? Það eru margir mjög ritfærir menn sem skrifa á spjallinu og gætu gert Golf á Íslandi ennþá skemmtilegra.
Það eru því miður einhver dæmi þess að menn hafi farið í svolitla fýlu út í mig eftir að ég hef kastað kylfunni í þeirra átt. Til að minnka líkur á að svo verði ætla ég að setja krónur þar sem kjafturinn á mér er. Ég skora á kylfinga til að senda greinar í jólablað Golf á Íslandi. Greinarnar sendist til ritstjóra Páls Ketilssonar á netfangið pket (hjá) vf.is, þið megið gjarnan senda mér afrit á netfangið margeir (hjá) 3putt.is. Ég mun veita verðlaun fyrir þrjár bestu greinarnar og þær verða allar birtar í blaðinu. Nokkurs konar opið vetrarmót án forgjafar í blaðaskrifum. Lágmarkslengd er A4 síða með 12 pkt. letri og einföldu línubili. Hámarkslengd, fjórar slíkar síður. Efnistök eru frjáls að öðru leyti en því að þau verða að tengjast golfi. Skilafrestur er til 20. nóvember næstkomandi. Fyrstu verðlaun kr. 20.000, önnur verðlaun kr. 10.000, þriðju verðlaun kr. 7.500. Að sjálfsögðu verður skipuð óháð ritnefnd til að dæma greinarnar.
Því segi ég að lokum eins og Vodafone froskurinn.......koddu koddu koddu
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson