Ég er forgjafarsvindlari
Það er ekki óalgengt að þegar kylfingar koma út á vellina á vorin að einhverjir sem hafa æft vel yfir veturinn komi ótrúlega vel stemmdir til leiks og má þá oft sjá í fyrstu mótum ársins ótrúleg Stableford skor, langt yfir 40 punkta. Í einhverjum tilfellum meira að segja yfir 50. Í kjölfarið fylgja miklar umræður um forgjafarsvindl. Oft er hér um að ræða kylfinga sem eru tiltölulega nýbyrjaðir, æfa vel yfir veturinn og svo þegar kemur að því að geta leikið til forgjafar, þá lætur árangurinn ekki á sér standa.
Forgjöfin er einn af þeim lykilþáttum sem gerir golfið skemmtilegt. Allir geta keppt á jafnréttisgrundvelli. Eða svona næstum allir.......
Hér á landi eins og í um 20 öðrum Evrópulöndum notum við EGA forgjafarkerfið. Tilgangur kerfisins er að sjá kylfingum fyrir sanngjarnri forgjöf sem leiðrétt sé í samræmi við hve erfiður leikinn völlur er og að ná jöfnuði og samræmi í forgjafarreikningi um alla Evrópu í framtíðinni.
Ég veit ekki hversu margir kylfingar, aðrir en þeir sem starfa í forgjafarnefnd GSÍ hafa lesið reglubókina sem flokkast því miður eins og margar aðrar slíkar bækur ekki undir skemmtilesningu. Gróflegt mat mitt á reglubókinni er að ef að farið er eftir nákvæmum skilgreiningum reglubókarinnar þá eru flestir, ef ekki allir íslenskir kylfingar forgjafarsvindlarar. Óafvitandi.
Ég er þeirrar skoðunar að til að fá sem réttasta mynd af forgjöfinni, eigi allir kylfingar að slá alla leikna hringi inn til forgjafar. Alltaf. Samkvæmt reglunum er kylfingum með 4,4 og lægra í forgjöf þetta óheimilt. Þeir mega eingöngu nota skor út viðurkenndum mótum til forgjafarútreiknings.
Til að halda gildri EGA forgjöf þarf leikmaður að skila inn 4 skorum á leiktímabili. Fyrir 5 árum síðan var gerð könnun hjá GR um hversu margir félagsmenn í klúbbnum uppfylltu það skilyrði að leika 4 hringi til forgjafar tímabilið á undan. Niðurstaðan var sú að innan við 50% félagsmanna uppfylltu skilyrðið og því var forgjöf þeirra m.v. forsendur forgjafarkerfisins ógild/óvirk. Gaman væri að sjá tölur frá GSÍ um hversu margir félagsmenn sambandsins hafa "gilda" forgjöf. Líkast til eru það vel innan við 50%. Slík forgjöf telst ekki gefa rétta mynd af getu leikmanns, þykir í lagi til notkunar við almennan leik, en leikmaður með "ógilda" forgjöf getur ekki unnið til verðlauna í golfmótum frá og með 1. júlí 2008, skv. samþykkt á Golfþingi árið 2007.
Skv. reglu 8.2 gilda forgjafarskilyrði ekki þegar leyfðar eru hreyfingar á golfvelli sem eru umfram 15 cm. Yfirleitt eru hreyfingar á golfvöllum á Íslandi leyfðar sem nemur kylfu- eða skorkortslengd. Kylfur eru eins og allir vita, töluvert lengri en 15 cm og skorkort helstu valla eru um 20 cm. Golfsambandinu er að vísu heimilt að ákveða fjarlægð fyrir sérlega afbrigðilegar aðstæður, en þrátt fyrir nokkra leit, hef ég ekki fundið upplýsingar að slík fjarlægð hafi verið gefin sérstaklega út. Þeir sem hafa skilað inn skori til forgjafar þar sem hreyfing umfram 15cm hafur verið leyfð, hafa því gerst brotlegir við reglu 8.2.
Skv. reglu 10.3 og 10.4 gilda forgjafarskilyrði ekki þegar frávik frá lengd mælds vallar eru meira en 100 metrar miðað við 18 holur, eða 50 metrar miðað við 9 holur. Séu hreifanleg teigmerki á tveimur holum utan við 10 metra fjarlægð frá mældum fjarlægðarpunkti (hvort sem er framan eða aftan, gilda forgjafarskilyrði ekki. Þeir sem hafa skilað inn skor af velli þar sem þetta hefur gerst, jafnvel óafvitandi, hafa gerst sekir um að skila inn ólöglegu skori samkvæmt reglunum. Rétt er að benda á að ekkert eftirlit er haft með því að reglunum sé fylgt við framkvæmd móta, hvað þá við daglegan leik á golfvöllum landsins. Þannig geta t.d. vallarstarfsmenn gert kylfinga að forgjafarsvindlurum, bara með því að taka tvo gula teiga úr leik í einn dag vegna viðhalds.
Ef þú kemst svo óskaddaður í gegnum það sem hér að ofan er talið, er þá eftir hin eina sanna gildra, en það er regla 18., en hún fjallar um æfingaskor. Golfsambandinu er heimilt að setja reglur um notkun æfingaskora til forgjafar. Því miður, þrátt fyrir nokkra leit hef ég ekki orðið var við útgáfu þessara reglna hérlendis. Til viðbótar er fjallað í reglunum um hvernig leikmenn skuli skrá sig á sérstakan lista (ÆS "æfingaskor") áður en leikur hefst, og skili þeir ekki skorkortinu, þá skuli meðhöndla skorið eins og leikmaður hafi ekki lokið leik.
Rúsínan í pylsuendanum er svo fyrir metnaðarfulla kylfinga sem eru að reyna að komast niður í forgjafarflokk 1. (niður fyrir 4,4). Stranglega er bannað að komast niður í þann flokk með því að skila inn æfingaskor. Í þann flokk kemstu eingöngu með því að leika í viðurkenndu móti. Þannig má leikmaður sem er með 4,7 í forgjöf og nær 40 punktum á æfingahring, einungis lækka niður í 4,5, en ekki 4,3 eins og hann ætti að gera m.v. árangurinn.
Við eigum hreint ágætt kerfi hér á landi sem heitir golf.is. Inn í það kerfi skrá þeir kylfingar sem vilja halda samviskusamlega utan um forgjöfina (og það mega skv. reglunum) leikna hringi- eða æfingaskor. Því miður verður ekki séð að EGA reglurnar hér á landi hafi verið aðlagaðar að þessu og því allir að brjóta reglurnar - óafvitandi.
Ég hvet alla kylfinga til að kynna sér EGA forgjafarkerfið. Reglubókina er að finna á www.golf.is
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson
Mynd: Opið er á sumarflatir í Leiru nú í vetur. Skor á vellinum er samt ekki hægt að nota til forgjafarútreiknings.