Kylfukast

Árgjöld 2010
Þriðjudagur 29. september 2009 kl. 13:40

Árgjöld 2010

Fyrir rétt tæpu ári síðan tóku flestir golfklúbbar landsins þá ákvörðun um að hækka ekki árgjöld. Ákvarðanir um krónutölu árgjalda sem við greiddum á liðnu ári voru  teknar í október/nóvember 2007. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Það er sama hvort kylfingum líkar það betur eða verr, vísitala neysluverðs hefur hækkað um 26% frá september 2007 til september 2009. Nokkur umræða hefur verið um afkomu klúbbanna á liðnu ári og ljóst að þeir hafa þurft að taka á sig töluverðar hækkanir við rekstrarkostnað golfvallanna, s.s. í áburði, fræjum, aksturkostnaði með efnin, olíu og bensíni svo ekki sé talað um verðhækkanir á hinum ýmsu tækjum og tólum sem þarf að endurnýja reglulega.
Verði árgjöld klúbbanna nú hækkuð m.v. vísitölu neysluverðs frá september 2007 til september 2009, munu árgjöld hjá Golfklúbbnum Oddi fara í 95.000 krónur, GKG og GK fara í 87.000 krónur og GR í 86.000 krónur.
Þetta eru alvöru tölur, en staðreyndin engu að síður sú að 95.000 krónurnar í Oddi jafngilda 76.000 krónunum sem ákveðnar voru árið 2007. Kylfingar eru væntanlega flestir sammála um það að nú þurfi að leita leiða til þess frekar að taka til í rekstri, klippa niður kostnaðarhliðina og spara í rekstri, þannig að árgjöldin verði ekki hækkuð sem þessu nemur. Ekki er víst að hún sé til góðs. Hvað geta klúbbarnir gert til að spara án þess að skerða um leið þjónustu?  Ekki er óalgengt að laun og launatengd gjöld séu um 45-50% af rekstrarkostnaði golfklúbbanna og því lægi beinast við eins og svo oft í rekstri að draga þar verulega saman.  Það jafngildir skerðingu á þjónustu, sama hvað hver segir.
En eru til önnur ráð? Getur kannski verið að vandamál klúbbanna séu ekki hár rekstrarkostnaður heldur frekar tekjuskortur? Eftirsóttustu tímarnir séu seldir of ódýrt og óvinsælustu tímarnir séu of dýrir.
Ég held að það sé kominn tími til þess að skoða tekjuhliðina og hvernig best væri að bæta sölu inn á vellina.
 
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson