Súrsætt par í Hvaleyrinni og fimm réttir í lottóinu
Sá sem er næstur á teig upplifði ansi súrsætt par á Hvaleyrinni, eftir að fyrri boltinn hafi farið í fjöruna á 15. holunni, sveif seinni boltinn fallega inn á flöt og beint ofan í holuna! Gott par, já eða öllu heldur súrsætt par.
Magnús Örn Guðmundsson, viðskiptafræðingur og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, er næstur á teig.
Mangi eins og hann er oft kallaður á meðal félaganna, var eitt af fórnarlömbunum þegar einn félaga hans hélt að hann hefði fengið fimm rétta í lottóinu! Textavarp sjónvarpsins var sett upp í tölvu og á dvd-disk og það eina sem hrekkjalómurinn þurfti að gera var að ýta á „play“ klukkan 23:07. Öllum fórnarlömbunum hafði verið fyrirskipað að kaupa fimm raðir í lottó-inu fyrir viðkomandi laugardag og svo fór fram fjölþraut þar sem menn gátu unnið sér inn fleiri seðla í lottó-inu, t.d. með því að vinna golfið þennan dag. Sá sem myndi fá flesta rétta á öllum seðlum myndi standa uppi sem sigurvegari í fjölþrautinni. Það er eiginlega magnað að þessir kláru menn hefðu keypt þessa tugþraut...
Lottó-„vinningshafinn“ taldi fyrst vitlaust, var himinlifandi yfir að hafa fengið fjóra rétta. Mangi fór yfir seðilinn og átti þessa óborganlegu línu;
„Þú ert með fimm rétta; 2, 15, 19, 26 og 28. Þú ert með fimm rétta, ég er að segja þér það!“
Því miður kláraðist spólan, það vantar hvernig takan endaði en eftir að lottóvinningshafinn var búinn að fagna, hringja í bróður sinn og bjóða honum í golfferð, spurði hrekkjusvínið á hvaða seðil vinningurinn hefði komið. Vinningurinn kom auðvitað á seðilinn sem hrekkjusvínið hafði keypt og þ.a.l. taldi hann sig eiga miðann og lottóvinningurinn væri réttilega hans. Um þetta var karpað í tíu mínútur þar til ný frétt kom á textavarpið;
„Lottó-grín fer úr böndunum í Grindavík.“
„Vinningshafinn má prísa sig sælan að potturinn var bara einfaldur þennan laugardag, sexfaldur hafði gengið út helgina á undan, sjöfaldur pottur hefði verið í kringum 100 milljónirnar!
Hægt er að sjá upptöku af þessu í spilaranum.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?
Ég byrjaði að fikta við þetta sem krakki, afi og amma voru í þessu. Hannes Páll, eldri bróðir minn, var mikið út á velli í gamla daga og yngri bræður fengu að hanga með. Svo hefur þetta bara komið í skorpum en ég hef alltaf haldið þessu við. Ég hef alltaf heillast af þessari íþrótt og það er gaman að sjá hvernig hún hefur stökkbreyst í vinsælustu fjölskylduíþrótt á Íslandi.
Helstu afrek í golfinu?
Þau eru fá og lítil. Konan mín og eldri guttinn minn sjá um að safna verðlaunagripum í golfíþróttini á heimilinu, þau standa sig býsna vel. Ég á þó mjög stóran bikar eftir að haf unnið vinnufélagana í Grafarholtinu fyrir nokkrum árum og er hann vel geymdur í bílskúrnum. Svo hef ég unnið vinahópinn minn tvisvar í FÓK mótinu, við reynum að keppa árlega. Það eru sterkir kylfingar í þeim hópi. Ég tel þó mikið afrek hjá mér að hanga inní HR sveitinni en ég var í fyrsta úrskriftarárgangi HR 2001. Við höfum keppt við kennarana okkar árlega síðan og fyrirliði okkar, Einar Þorsteinsson, leitar enn til mín af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Það er skemmtilegur hópur en meistari Agnar Hansson er fyrirliði mentoranna.
Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?
Það var þegar ég tapaði á móti Guðmundi Magnússyni vini mínum niðri á Flórída, á hans heimavelli, Waldorf Astoria. Það var unninn leikur en hann er besti púttari í heimi á eftir Donald Trump og því fór sem fór. Einnig hef ég gefist upp í meistaramóti fyrir mörgum árum en það má ekki fréttast. Þá var ég staddur á 8. holu á Nesinu („Stökksönd“ en allar brautirnar bera fuglaheiti) og fyrir fram mig var beljandi Búðartjörnin og 20 m/sek norðanbál. Ég lúðraði öllum boltunum mínum ýmist í tjörnina, slæsaði þá út í sjó eða kenghúkkaði þá inná 5. braut sem er out. Sem sagt allt í skrúfunni. Þá sagði ég eftirminnileg orð að sögn félaga minna: „Ég nenni þessu ekki sko, ég er hættur og farinn heim.“
Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Gunnar Andrésson og Eiríkur Önundarson, báðir þjóðþekktir afreksíþróttmenn í sínum greinum.
Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?
Ekki endilega en kannski eitthvað ómeðvitað. Ég veit að á eftir fugli kemur lélegasta högg dagsins. Ég er með koníakspela og fagna hverjum fugli. Mesta furða hvað gengur lítið á hann.
Hefurðu farið holu í höggi? Ef já, lýstu augnablikinu. Ef ekki, hvað er það næsta sem þú hefur komist?
Já, ég hef farið holu í höggi, í þriðja höggi! Það var átakanlegt og kylfingar vita að það telst ekki með. Bara súrsætt par. Þetta var á 15. holu á Hvaleyrinni, sumarið 2017. Þessi hola ber heitið „Yfir hafið og heim“, og spilast sem 12. hola í dag. Hún er um 140m, og þegar þetta gerðist var nýbúið að opna hana, mögulega var enginn búinn að fara holu í höggi þar. Glæsileg hola en grínið er varið með glompum vinstra megin og grjótgarði hægra megin. Fyrsta höggið var aðeins of stutt og lenti í grjótgarðinum og beint út í sjó. Seinni boltinn var hins vegar sannkallað draumahögg, ég vissi strax að höggið yrði gott. Boltinn lenti vinstra megin við holuna og skoppaði svo tvisvar áleiðis ofan í. Við áttum ekki til aukatekið orð félagarnir.
Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?
Allt. En fyrst og fremst þarf ég að spila meira, forgjöfin hækkar bara og hækkar. Þetta hefur dottið niður hjá mér síðustu árin vegna anna og svo bæta sílin ekki úr skák, þá fer allur tíminn í uppeldið. En ég er þó búinn að koma báðum guttunum í golfið (núna 7 og 10 ára), þeir æfa báðir í Nesklúbbnum og sá eldri meira að segja orðinn klúbbmeistari. Barnastarfið hjá Nesklúbbnum er til mikillar fyrirmyndar. Konan er orðin betri en ég og ég þarf því að taka mig taki – þetta hálfkák gengur eiginlega ekki mikið lengur. Ég er samt með lægri forgjöf en Pétur Guðmarsson.
Aldur: 46
Klúbbur: Nesklúbburinn
Forgjöf: 16,8
Uppáhaldsmatur: Það er margt, líklega bara góð lambasteik eða nautalund.
Uppáhaldsdrykkur: Gott Burgundy rauðvín frá Sante.
Uppáhaldskylfingur: Ég horfi mikið á golf og þetta sveiflast dáldið. Er hrifinn af Åberg núna og Scheffler er auðvitað magnaður leikmaður. Svo er Nelly Korda í miklu uppáhaldi hjá okkur hjónum.
Þrír uppáhaldsgolfvellir:
Nesvöllurinn vitanlega, hann er sýnd veiði en ekki gefin. Waldorf völlurinn í Orlando er líka í uppáhaldi af sögulegum ástæðum. Ég var heppinn að komast á The Open í fyrra í Liverpool og ætla að setja Royal Liverpool líka á listann, það var ógleymanleg upplifun að fara þangað, ekki síst fyrir grjótharðan Liverpool mann.
Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi:
„Yfir hafið og heim“ á Hvaleyrinni, af augljósum ástæðum! 13. holan í Kiðjabergi er mögnuð og svo dettur mér í hug 7. holan í Oddinum, einstaklega skemmtilegt innáhögg. Heilt yfir er þó 19. holan skemmtilegust alls staðar, þ.e. að vera að í góðra vina hópi og gera upp ævintýri dagsins.
Erfiðasta golfholan:
Mér finnst lokaspretturinn á Hellu og Grafarholtinu alltaf brekka, margar erfiðar á Oddinum líka. Segi tíunda á Oddinum til að segja eitthvað, óþolandi hola! Svo er auðvitað engum sigandi á 8. brautina á Nesinu í þeim aðstæðum sem ég lýsti hér að framan.
Erfiðasta höggið:
Erfiðasta höggið er þegar þú ert búinn að sh.... tvo bolta í röð (það er bannað að segja þetta orð upphátt!). Þá getur tvennt gerst. Þú hættir að sh.... eða veröldin hrynur ofan á þig.
Ég hlusta á: Margt, helst eitthvað sígílt og melodískt. Ég hef alltaf haldið mikilli tryggð við Sálina til dæmis. Ég á það til að hlusta á klassíska tónlist líka.
Besta skor: 82 - veit að það er lögreglumál að hafa ekki farið undir 80 eftir öll þessi ár og málið er enn í rannsókn.
Besti kylfingurinn: Tiger Woods
Golfpokinn: PING
Dræver: PING G425
Brautartré: PING G425 3-tré
Járn: PING i200
Fleygjárn: 52 og 58 gráðu Titleist Vokey
Pútter: Ég er með gamlan brons pútter frá afa mínum, PING MyDay. Hann er líklega 50-60 ára gamall.
Hanski: Titleist Perma Soft
Skór: Footjoy Traditions