Kylfingur dagsins

Skoraði mörk fyrir ÍBV, samdi Komum fagnandi og hefur farið holu í höggi - á par 3 velli
Leifur Geir Hafsteinsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 18. ágúst 2023 kl. 10:38

Skoraði mörk fyrir ÍBV, samdi Komum fagnandi og hefur farið holu í höggi - á par 3 velli

Leifur Geir Hafsteinsson er kylfingur dagsins. Hann gerði garðinn frægari sem knattspyrnumaður en hann hefur gert sem golfari - hingað til. Leifur er uppalinn Eyjapeyji, ólst þar upp og sló væntanlega fyrstu golfhöggin í Vestmannaeyjum, þó svo að hann segist hafa byrjað af alvöru í Bandaríkjunum síðar meir. Þekktastur er hann fyrir knattspyrnuiðkun og svo samdi hann líka stuðningsmannalag ÍBV, Komum fagnandi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?

Byrjaði 2001 þegar ég var í doktorsnámi í Virginia í Bandríkjunum - gerðist einfaldlega þannig að ég ákvað það! Hafði langað að koma mér af stað eftir að ég hætti í fótbolta og kjörið tækifæri að gera það í Bandaríkjunum. 

Helstu afrek í golfinu?

Þau eru sorglega fá. Fór reyndar holu í höggi rétt eftir að ég byrjaði en það var á par 3 velli og þó holan væri 100m telur það víst ekki. En ég veit að það gerðist! 

Svo sló íþróttasíða DV því upp í fyrirsögn 1996 að “Leifur Geir Hafsteinsson er Íslandsmeistari í golfi”, en það var víst Birgir Leifur Hafþórsson - þeir rugluðu nöfnunum á fótboltamanninum og kylfingnum blessaðir! 

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?

Þegar ég hælaði dræv á 1. teig í meistaramóti GKG 2021 ca 7m til vinstri niður af teig í drasl, með fullt af áhorfendum í kring. Ég bað hirðljósmyndara GKG sem var á svæðinu vinsamlegast að slökkva á myndavélinni rétt á meðan ég væri í draslinu að reyna að komast að boltanum. Hann kinkaði kolli, tók mynd af mér klórandi mér í hausnum í draslinu fyrir neðan teiginn, sem hann svo setti í ársrit GKG. Helv. melurinn!  

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?

Man bara ekki eftir að hafa spilað með einhverjum frægum…Sibbi frændi er kannski frægur að endemum…

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf? 

Að sjálfsögðu ekki. 

Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?

Upphafshögg. Og allt sem tengist fullri sveiflu og gerist lengra en 130m frá holu. Þarf að bæta sveifluhraða líka ef ég vil lækka eitthvað að ráði.  

Aldur: 53 ára

Klúbbur: GKG

Forgjöf: 11,2

Uppáhalds matur: 

Góður hamborgari eftir 18 holur er kannski ekki besti matur í heimi, en ansi mikil nautn. 

Uppáhalds drykkur: 

Ætli það verði ekki að teljast Pepsi Max…þar til ég hætti að drekka það bráðlega. 

Uppáhalds kylfingur: 

Erfið þessi en ætla að nefna þrjá. 

Ég er einn af þeim sem fíla Bryson DeChambeau þó hann sé kannski ekki uppáhalds. Ég er alltaf hrifinn af þeim sem hlusta á gögn, hugsa rökrétt, eru óhræddir við að gera breytingar og fara sínar eigin leiðir að árangri. Þeir eru oft rakkaðir niður en breytingar og framþróun verður ekki nema einhver þori að taka sénsa. 

Ég var ótrúlega hrifinn af Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur þegar hún var að nálgast sitt besta, ekki síst vegna þess hvað mér fannst hún vera rétt stillt andlega. Jákvæð, glöð og kát, tók sig passlega hátíðlega en samt fær um að stilla sig í 100% einbeitingu þegar á þurfti að halda. Á meðan hún náði að halda þessu hugarfari var hún í heimsklassa, en það er hægara sagt en gert að halda því til lengri tíma, sérstaklega þegar fer að halla undan fæti. Það hafa margir góðir fengið að reyna það.  

Svo held ég að Úlfar Jónsson sé/hafi verið kylfingur að mínu skapi. Ekki mjög högglangur en skynsamur, strategískur og yfirvegaður. Þarf að plata hann til að spila Leirdalinn með mér og fá þetta staðfest. 

Bónuskylfingurinn er svo bekkjarbróðir minn og snillingurinn Þorsteinn Hallgrímsson. Það var gaman að fagna Íslandsmeistaratitli hans á Þjóðhátíðinni 1993!

Þrír uppáhaldsgolfvellir: 

Völlurinn í Eyjum er í sætum 1-10.

Las Colinas á Spáni fannst mér frábær, líka gaman að spila The Belfry á sínum tíma. Svo er alltaf hátíð þegar ég fæ að spila Pete Dye River course, sem var liðsvöllur háskólans míns, Virginia Tech. 

Þrjár uppáhalds golfbrautir á Íslandi: 

15., 16. og 17. í Eyjum. Þvílíkur lokakafli á velli!

Erfiðasta golfholan: 

  1. í Eyjum er ómöguleg. Upphafshöggið þar er það erfiðasta í bransanum. Held Þjóðhátíð ef ég slepp frá henni með bógí. 

Erfiðasta höggið:      

Upphafshögg sem þarf að fara frá hægri til vinstri. Staða sem er mjög ólíkleg til að fara vel.                       

Ég hlusta á: 

Bítlana, Vini og vandamenn, Þjóðhátíðarlög, Laufey Lin, Billie Eilish, og margt fleira. 

Besta skor: 

Ef ég kemst undir 80 er ég himinlifandi. Það gerist ekki oft en samt nokkrum sinnum á ári.  Á best 79 á Leirdalnum.

Besti kylfingurinn: 

The GOAT er náttúrulega Tiger. Var í USA 2000 - 2004 og fylgdist grannt með öllu golfi þá. Ótrúleg forréttindi, svona eftir á að hyggja, að hafa upplifað þau ár Tigers í návígi. Þumalskrúfan sem maðurinn hafði alla aðra í var fáránleg. Hann var drápsvél.  

Golfpokinn

Dræver: Ping G425 Max.
Brautartré: 3w Ping G430. 5w og 7w Ping G525
Járn: Ping G425
Fleygjárn: Ping Glide 4.0 54° og 60°
Pútter: Scotty Cameron Newport 2.0, árgerð 2003 eða 2004.
Bolti: Vice Pro.
Hanski: Það sem passar.
Skór: ON utanvegahlaupaskór. 

Leifur Geir mitt í sínu vandræðalegasta augnabliki á golfvellinum