Gulli í hópi með heimsþekktum kylfingum í úrtökumóti fyrir OPNA mótinu
Gunnlaugur Árni Sveinsson endaði í 18.-20. sæti sæti á einu af fjórum lokaúrtökumótunumm fyrir OPNA mótið í gær. Gunnlaugur lék á Royal Cinque Ports vellinum í Englandi, endaði á pari á 36 holunum (70-74) og var fjögur högg frá því að enda í einu af fimm efstu sætunum. Margir frægir kylfingar reyndu fyrir sér á úrtökumótunum.
Leikið var á fjórum völlum en þetta var síðasti möguleiki fyrir kylfinga til að komast inn á þetta elsta risamót atvinnumanna en það verður leikið á Royal Portrush vellinum í Norður Írlandi 17.-20. júlí.
Lokastaðan á Royal Cinque Ports.
Margir kunnir kappar sem og minna þekktir kylfingar voru meðal þátttakenda um þessi tuttugu sæti sem voru í boði. Englendingurinn Ian Poulter og sonur hans Luke léku á sama velli og Gulli og enduðu höggi betri en hann en Luke lék á úrtökumóti fyrir Opna bandaríska mótið eins og okkar maður í júní. Það er afar sjaldgæft að feðgar séu í sama móti en Ian Poulter gekk til liðs við LIV mótaröðina og býr í Orlando þar sem Luke sonur hans hefur stundað nám og ekki síst golf af kappi.
Fleiri kunnir kappar voru meðal keppenda í úrtökumótunum, Englendingurinn Lee Westwood sem eins og Poulter er á LIV mótaröðinni, komst inn á OPNA mótið með góðu golfi. Hann er einn þekktasti kylfingur Englendinga. Hann var fyrir aldarfjórðung í efsta sæti heimslistans og lék fyrst á OPNA mótinu árið 1985.
Í hópi minna þekktra kylfinga sem komust áfram var John Axelsen frá Danmörku en hann er með þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni og hefur iðulega verið í sömu mótum og Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Annar og enn minna þekktur kylfingur, Richard Teder frá Eistlandi komst áfram eftir mikla dramatík. Hann var í þriggja manna bráðabana um eitt sæti og komst áfram með því að vippa ofan í fyrir erni á West Lancashire vellinum í Englandi.
Sjá vippið hér og fréttir úr úrtökumótunum fjórum.
Haraldur Franklín Magnús er eini Íslendingurinn sem hefur leikið á OPNA mótinu en hann gerði það eftir að hafa leikið á úrtökumóti eins og Gunnlaugur var í núna. Haddi lék á Carnoustie vellinum á OPNA mótinu 2018 og stóð sig vel og var ekki langt frá niðurskurðinum.