Kylfingur dagsins

Fjallabyggðar kylfingurinn er Ping maður
Sigurbjörn á heimaslóðum á golfvellinum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 28. júní 2021 kl. 11:31

Fjallabyggðar kylfingurinn er Ping maður

Sigurbjörn Þorgeirsson, lögga og stórkylfingur úr Fjallabyggð hefur komið eins og stormsveipur inn í mótaröð eldri kylfinga. Hann hefur þegar þetta er skrifað í lok júní sigrað á tveimur og verið í 2. sæti og 6. sæti í öðrum tveimur. Kylfingur.is heyrði í Sigurbirni sem er hógværðin uppmáluð en forgjöfin er lág og hann er Ping maður. Hér að neðan sjáið þið meira um kappann.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig atvikaðist það?

Ætli það hafi ekki verið um 1980 sem ég byrjaði að fara með félögum mínum, Vigfúsi og Húnboga.  Foreldrar þeirra, Erla Adolfs og Jóhann Pétur voru miklir golfarar og voru oft á vellinum.  Þetta vakti strax áhuga minn og eftir það var ekki aftur snúið.  Upp úr tvítugu lagði ég kylfurnar á hilluna en átta árum síðar byrjaði ég aftur.  Þá var ég orðinn lögga í Reykjavík og var á vakt með vini mínum Sigga Pé.  Hann kom mér á bragðið aftur og hef ég verið samfellt síðan þá.  

Hefur þú alltaf verið í Golfklúbb Fjallabyggðar?

Á barna og unglingsárunum var ég alltaf í Golfklúbbi Akureyrar.  Síðan tók við stutt stopp í Keili og GR.  Í kringum 2003 flutti ég til Ólafsfjarðar og hef verið meðlimur í GFB síðan.

Hvernig er æfingaaðstaðan hjá GFB? Getið þið æft inni á veturna?

Æfingaaðstaðan er fín, maður slær alltaf á grasi á sumrin, er út um allan völl við æfingar.  Á veturna er ég með smá aðstöðu í skúrnum, reyni að æfa þar þrátt fyrir að gönguskíðin togi meira í mann þá.

Kemur þér á óvart hversu vel hefur gengið í upphafi tímabilsins og á þínu fyrsta ári í LEK?

Já og nei, hef yfirleitt verið duglegur að æfa og var kannski extra duglegur fyrir þetta tímabil.  Ætlaði mér alltaf að stríða "stráknum" á LEK mótaröðinni.  En það má ekki gleyma að margir þeirra eru frábærir kylfingar en ætli heppnin hafi ekki fallið mín megin.

Hverjir eru þínir helstu styrkleikar í íþróttinni?

Veit ekki alveg en reyni að æfa veikleikana. Við erum nefnilega gjörn á að æfa það sem við erum góð í en gleymum hinu.

LEK mótaröðin er orðin gríðarlega sterk mótaröð með marga hákarla eins og Tryggva Traustason, Sigurjón Arnarson, Helga Anton Eiríksson ofl. Er þessi mótaröð ekki  mikil hvatning fyrir eldri kylfinga, bæði þá að keppa til landsliðs og einnig bara til að hitta gamla félaga?

Ég allavega lít svoleiðis á það.  Mér finnst frábært að hitta þessa stráka, spila með þeim og reyna að gera aðeins betur en þeir. Síðan er það bónus að keppa um sæti í landsliðinu. 

Hvað er í pokanum?

Ég er Ping maður

Aldur: 50

Klúbbur: Golfklúbbur Fjallabyggðar

Forgjöf:  1,2

Uppáhalds matur: Lambahryggur

Uppáhalds drykkur:  Vatn 

Uppáhalds kylfingur: Get ekki gert upp á milli Sigga Pé og Bjögga Sigurbergs.

Þrír uppáhaldsgolfvellir:  Ég get ekki gert upp á milli þeirra, segi bara íslenskir golfvellir á góðum degi 

Þrjár uppáhalds golfbrautir á Íslandi:  Við eigum ótrúlega margar flottar golfholur, íslenskar að sjálfssögðu.

Erfiðasta golfholan:  Það eru nokkrar sem hafa strítt manni í gegnum tíðina

Erfiðasta höggið:  Það er ekkert högg erfitt  

Ég hlusta á:  Visma Skiclassic podcast

Besta skor:  -5

Frægasti kylfingurinn sem þú hefur leikið með?  Sigurður Pétursson heitinn, það þekktu allir Sigga Pé

Dræver: Ping G410

Brautartré: Ping G400

Járn: Ping i200

Fleygjárn:  Titleist Vokey

Pútter:  Scotty og Odyssey

Hanski:  Ping