Fréttir

Barnagolf fyrir útvalda
Mynd úr safni kylfing.is
Fimmtudagur 5. september 2024 kl. 16:42

Barnagolf fyrir útvalda

Nú hefur GSÍ tekið upp nýja stefnu í barnamótum. Eitt af því sem hefur verið rætt er að minnka afreksstefnu á yngstu kynslóðina. Aðgerðir Golfsambandsins eru hins vegar þvert á þessa stefnu og sumarið loks á enda og margir ungir kylfingar sitja eftir með spurninguna hvað þeir vilja æfa í vetur og samkeppnin er svo sannarlega hörð.

Ég á tvo stráka, annar þeirra orðinn 9 ára er í golfi, hann er búinn að æfa í nokkur ár og fer alveg að detta í forgjöf. Hinn tveimur árum yngri er fótboltastrákur. Ég hef ekki tölu á því hversu mörg fótboltamót sá yngri hefur farið á, hversu marga æfingaleiki hann hefur spilað og það er lúxus vandamál hjá honum hvar hann á að hengja upp alla þessa verðlaunapeninga. Á hverju móti fær hann verðlaunapening ásamt fleiru sem hann gengur stoltur með um hálsinn og nýtir gjafabréfið sem hann fékk til að fá sér ís. Allir vinir hans eru í fótbolta, fótbolti er spilaður í frímínútum og fótbolti er töff! 

Þessi 9 ára sem er búinn að koma oftar en ekki með á fótboltamót bróður síns talaði mikið um það síðasta vetur að það yrði gaman þegar bróðir hans gæti nú endurgoldið greiðan og fylgst með honum keppa í sumar. Hann hlakkaði spenntur til að sjá alla hina krakkana sem æfa golf og kynnast fleirum. Sjáið til það spilar enginn golf í frímínútum, hann fer oftast einn með frítstundabílnum á golfæfingar því það er enginn í bekknum hans að æfa golf og hinum krökkunum er oftast bara nokkuð sama um golf. 

Golfmótin skipta hann því gríðarlega miklu máli, ekki að vinna, heldur að sjá stærð íþróttarinnar, finna að hann hafi eitthvað að stefna að og nú að golf sé nú bara soldið töff. Það verður að segjast að sumarið hafi verið smá vonbrigði í þessum efnum. Nú, því Golfsambandinu virðist bara vera alveg sama um þennan aldur. Hrós á GKG fyrir Nettó mótið þar sem hann skemmt sér konunglega og skartar ennþá Nettó handklæðinu á pokanum sínum. Hann tók þátt í Meistaramóti Keilis og bætti sig um rúm 20 högg á fyrsta hring milli ára, nær samt ekki verðlaunasæti en fékk þó viðurkenningarskjal og pizzu.

Svo núna síðastliðna helgi fékk hann tækifæri til að spila í Íslandsmóti golfklúbba 12 ára og yngri, drengurinn ljómaði. Hann vann ekki leik en honum var alveg sama. Það voru 130 krakkar 12 ára og yngri samankomnir að spila golf! Hann sá önnur lið, merktan fatnað og prófaði nýja velli. Það voru reyndar fjögur lið í þeirra deild þannig liðið hans sat eftir meðan allir aðrir en þau fengu verðlaunapeninga og uppklapp á verðlaunaafhendingu. Þegar ég kommentaði á þetta við fulltrúa GSÍ á staðnum þá var mér bent á að þau hefðu nú fengið flatarmerki í teiggjöf. Ég kannski fæ leiðbeiningar frá GSÍ hvernig ég hengi það upp á vegg fyrir hann. 

Næstu helgi fer svo fram mót á vegum GSÍ og N1 hjá GR. Þar er flokkur fyrir 12 ára og yngri, það lifnaði nú heldur betur yfir okkar manni að heyra að það væri annað mót framundan! En nei það er hámarks forgjöf 40. Kannski ekki skrítið að af þessum 130 sem kepptu síðustu helgi eru bara 39, 12 ára og yngri skráðir um helgina. 

Kæra GSÍ það er ykkar starf að sjá til þess að stækka og viðhalda áhuga á golfíþróttinni, það er samkeppni um hvaða tómstundir krakkar sækja í og þið eruð að gera okkur foreldrum helvíti erfitt fyrir viðhalda áhuganum á golfi. Golfmót fyrir börn eiga að vera skemmtun, auðvitað á að veita verðlaun fyrir þá bestu en á sama tíma verðið þið að hugsa um alla hina sem eru ekki í efstu þrem. Það labbar ekkert barn stolt um að sýna vinum og fjölskyldu flatarmerki eða flatargaffal. Gerið betur.

Gunnar Þór Sigurjónsson.

Caption