golfnamskeið forsíða
golfnamskeið forsíða

Viðtal

Þrettán ára í öðru sæti á Íslandsmóti
Pamela Ósk Hjaltadóttir vann til silfurverðlauna á Íslandsmótinu í holukeppni. Hún er á 14. aldursári. Ljósmynd: Úr einkasafni
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
mánudaginn 27. júní 2022 kl. 18:33

Þrettán ára í öðru sæti á Íslandsmóti

Pamela Ósk Hjaltadóttir úr GM vann til silfurverðlauna á Íslandsmótinu í holukeppni sem fram fór á Hlíðavelli í Mosfellsbæ dagana 17.-19. júní sl. Pamela Ósk er á 14. aldursári.

Hún vann alla sína leiki í riðlakeppninni; gegn Nínu Margréti Valtýsdóttur úr GR, Önnu Júlíu Ólafsdóttur úr GKG og Elsu Maren Steinarsdóttur úr GL. Í 8 manna úrslitum sigraði hún Berglindi Erlu Baldursdóttur félaga sinn úr GM og í undanúrslitum Hafdísi Öldu Jóhannsdóttur úr GK. Í úrslitaleik mætti Pamela Íslandsmeistaranum í holukeppni árið 2019, Sögu Traustadóttur úr GKG og þurfti Pamela að lúta í gras í þetta sinn en úrslitin réðust ekki fyrr en á 17. holu.

golfnamskeið forsíða
golfnamskeið forsíða

Pamela Ósk var að vonum ánægð með spilamennskuna og árangurinn á mótinu en markmið hennar fyrir mótið var að komast áfram úr riðlakeppninni. Hún sagðist í viðtali við kylfing.is ekki alveg muna hvenær hún byrjaði að leika golf þar sem hún var svo ung að árum en hún segist vita að hún hafi tekið fyrst þátt í innanfélagsmóti á sjöunda aldursári.

Pamelu hefur alltaf fundist skemmtilegt í golfi og hún er ansi lunkin kylfingur. Hún komst í fréttirnar fyrir tveimur árum síðan þegar hún lék Grafarholtsvöll á pari án þess að tapa höggi í Opna Foot Joy mótinu en hvernig líkar Pamelu við holukeppni?

„Mér finnst eiginlega þægilegra að keppa í holukeppni. Í holukeppni má maður gera fleiri mistök því maður getur alltaf gert betur á næstu holu. Það var alveg pínu stressandi að spila úrslitaleikinn en mér fannst það ekki trufla mig mikið.“

Pamela Ósk á lokadegi Íslandsmótsins í holukeppni. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson

Hefur þú verið í öðrum íþróttum en golfi í gegnum tíðina?

„Ég var bæði í fótbolta og körfubolta en golfið endaði alltaf ofan á.“

Eins og svo marga kylfinga, segir Pamela Ósk að sig langi að komast einn daginn í háskólagolfið í Bandaríkjunum. Hún hefur ekki langt að sækja golfáhugann og hæfileikana en faðir hennar, Hjalti Pálmason, hefur leikið í meistaraflokki í hátt í fjörutíu ár og er í dag með 0,4 í forgjöf.

Hjalti Kristján, yngri bróðir Pamelu, sem fæddur er árið 2010 er bráðefnilegur sömuleiðis og komst einnig í fréttirnar um svipað leiti og systir sín fyrir tveimur árum síðan, þegar hann lék 10 ára gamall á 69 höggum eða á 3 höggum undir pari, á Opna Air Iceland Connect mótinu sem leikið var á Landinu/Ánni á Korpúlfstaðavelli Golfklúbbs Reykjavíkur. Litla systir þeirra sem er rétt að verða sjö ára er einnig byrjuð í golfi og hefur nú þegar tekið þátt í sínu fyrsta golfmóti og Stefanía, móðir þeirra á golfsett sem hún notar af og til.

Pamela Ósk stefnir á að taka þátt í sínu fyrsta Íslandsmóti í höggleik í Vestmannaeyjum í ágúst og hlakkar mikið til. Það verður fróðlegt að fylgjast með framgöngu þessa efnilega kylfings þar og í framtíðinni.

Systkynin Hjalti Kristján, Edda María og Pamela Ósk. Ljósmynd: Úr einkasafni