Kylfukast: Trump-aður
Hinn skemmtilega litríki forsetaframbjóðandi Donald Trump hefur verið fyrirferðamikill í golfheiminum á undanförnum árum. Hann keypti m.a. Doral vellina á Miami, Turnberry hótelið í Skotlandi og byggði golfvöll í nágrenni Aberdeen í Skotlandi sem fékk það ágæta nafn Trump International. Það má útleggja á íslensku sem "Alþjóðlegi Trump".
Þeir sem fylgst hafa með kosningabaráttu Trump í USA vita að hann er allt annað en alþjóðlegur. Hann er kani. Ameríkani. Í Ameríku er allt stærst og best. Trump heldur því líka staðfastlega fram að Trump International sé besti golfvöllur í heimi.
Ekki var annað hægt en að prófa meintan besta golfvöll í heimi þegar við 8 góðir vinir heimsóttum Aberdeen svæðið. Besti golfvöllur í heimi tekur aðeins í veskið, 230 bresk pund fyrir hringinn.
Heimreiðin að vellinum er löng og glæsileg. Vel hugað að smáatriðum og snyrtimennska til fyrirmyndar. Skoskur fáni í risastærð að amerískri fyrirmynd blaktir yfir klúbbhúsinu sem er mjög smekklegt og hóflegt í stærð. Búningsklefar, kamrar og sturtur með ágætum. Golfverslunin undarleg blanda af skoskri og bandarískri sem kristallast helst í sölu á árituðu TRUMP viskíi (£500) og Ivanka Trump ilmvatni sem var litlu ódýrara enda TRUMP nafnið gulls ígildi. Kannski bragðast ilmvatnið betur en viskíið. Aðrir verða þó að dæma þar sem ég týmdi hvorugu.
Æfingasvæðið er frábært. Bæði fyrir stutt spil og löng högg. Ótakmarkað magn af æfingaboltum innifalið í vallargjaldi. Ekki veitir af að hita vel upp. Mjög vel.
Eftir góða upphitun var komið að því að berja dýrðina augum. Ræsirinn hélt mikla lofræðu um völlinn og bauð okkur að lokum að gjöra svo vel. Hann mælti með þriðju fremstu teigum sem af sjö. Hvítir. Litlar 6300+ stikur (e. yards) en bæði Bretar og Trump eiga erfitt með að aðlagast metrunum sem við hin notum. Við köllum þetta 5800 metra.
Velkominn á Trump. 16 m/s af mótvindi beint í smettið fyrstu fjórar holurnar dugði vel til að mölbrjóta sjálfsmynd leikmanns sem annars finnst hann sjálfur það besta síðan niðursneitt brauð. Enginn Stableford punktur í húsi. Til allrar hamingju var þá snúið við og örstutt par 4 hola með vindinn í bakið sinnti hlutverki Dr. Phil og bjargaði geðheilsu niðurbrotins kylfings sem eftir 5 holur hafði nú 2 punkta í húsi. Næstu 6 holur blés Kári hinn skoski í bakið.
Drævin sem í besta falli náðu 150 metrum á útleið urðu skyndilega nær 300 metrunum. Lundin léttist en leikurinn ekki. Risavaxnir sandhólar með mikilli órækt tóku á taugarnar ásamt sprengigígum sem á móðurmálinu heita "pot bunkers".
Landssvæðið og útsýnið er óviðjafnanlegt. Því miður gafst ekki mikill tími til að njóta þess þar sem leikmenn börðust af krafti við völl og vind. Bugun var ekki í boði.
Að leik loknum höfðu þeir sem best léku náð 28 punktum. Með herkjum. Aðrir þurftu að sætta sig við færri en 20.
Í Alþjóðlega Trump kristallast þau vandamál sem blasa við golfíþróttinni á heimsvísu. Meintur besti völlur í heimi byggður árið 2012 er svo frábær að 8 frambærilegir kylfingar eiga lítinn möguleika í veðuraðstæðum sem eru tiltölulega algengar á því landssvæði sem völlurinn stendur. Mikið erfiði. Lítil gleði. Að greiða fyrir slíkar trakteringar hátt í 40.000 krónur þótt útsýnið sé gott þýðir aðeins eitt.
Þú kemur ekki aftur.
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson