Kylfukast

Kylfukast: Tæknitröllið
Föstudagur 2. september 2016 kl. 09:37

Kylfukast: Tæknitröllið

Á flestum golfvöllum er að finna viðmiðunarmælingar sem sýna 100, 150 og 200 metra frá flöt. Á Golfþingi fyrir allmörgum árum sammæltust golfklúbbar á Íslandi um að allir stilltu brautarmerkingar af þannig að þær sýndu hversu langt væri að flöt, en ekki á hana miðja. Í dag eru fáir sem nýta sér þessar merkingar. Helsta hlutverk þeirra er að bera auglýsingamerki frá styrktaraðilum golfklúbbsins. 

Tæknin hefur rutt sér til rúms í golfinu. Þú ert ekki maður með mönnum nema vera að minnsta kosti með fjarlægðarkíki. GPS úr þykir flottara í dag. Snjallsíminn toppar þetta allt.
 
Tæknitröllið mætti til leiks í golfmót í sumar. Rafmagnskerra. GPS úr. Fjarlægðarkíkir. Snjallsími. Veður-app. Rafrænt skorkort. 
 
GPS úrinu er víst ekki alveg treystandi, svo það er nauðsynlegt að kíkja líka. Loftmyndin af brautinni sést svo í snjallsímanum. Rafmagnskerran er sjálfkeyrandi. Sjálfstýringin átti það til að hafa sinn eigin vilja. Þá þurfti að hlaupa á eftir kerrunni til að fá hana til að fylgja réttum ráshópi. Hann var líka með dróna sem hann vildi nota til að ná góðum myndum af sveiflunni.
 
Eftir ágætt teighögg á 1. braut þar sem boltinn lá við hliðina á 100 metra hælnum á brautinni byrjaði ballið:
  1. Kíkja á GPS úrið.
  2. Sannreyna GPS úrið með fjarlægðarkíki og fá nákvæmari mælingu.
  3. Sannreyna GPS úrið og fjarlægðarkíkinn með snjallsímanum.
  4. Fletta upp í snjallsímanum og skoða veðurspána á holunni.
  5. Leggja frá sér allan búnaðinn og velja kylfu.
 
Leikmaður með 16 í forgjöf. Er þetta slór við leik eða þarfnast nútíma kylfingurinn bara nákvæmari upplýsinga en áður? 
 
Það var nokkuð ljóst að það voru 100 metrar að flöt. Pinninn var á henni miðri. Létt gola á móti. 115 metra högg að mínu mati. Útreikningarnir sýndu hinsvegar að þetta voru nákvæmlega 116,75 metrar. 5 m/s vindur á móti. Eftir vandlega umhugsun tók leikmaðurinn upp níu. Vildi frekar taka pressaða níu frekar en létta áttu. 
 
Ég sá hnúana á honum hvítna þegar hann kreisti hendurnar utan um gripið. Andaði djúpt frá sér og reiddi öxina til höggs. Það small í boltanum þegar verkfærið skallaði hann beint í belginn. Eins og elding þaut boltinn áfram í þriggja metra hæð og var í sömu hæð þegar hann sveif yfir stöngina. Lenti að lokum í þéttum trjágróðri 30 metrum aftan við flötina. Græjurnar höfðu því miður ekki nákvæma mælingu á lengd höggsins. Ég giskaði á 160 metra. Það var ónákvæmt.
 
Eftir nokkra leit með „Find your ball“ appinu gáfumst við upp. GPS úrið og snjallsíminn hringdu bæði 5 mínútur. Þó með 30 sekúntna millibili. Þessi bolti hafði farið á vit feðranna. Gamall Titleist Pro V1. Okkur þótti ólíklegt að hann væri heill. Þetta var svo rosalegur skalli.
 
Niðurstaðan var sú að setja 7 í rafræna skorkortið. Það gefur ekki punkt. Enda var þetta ekki forgjafarhola. Venjulegt X dugði á pappírsskorkortið. Skrifað með gamaldags blýanti.
 
Á næsta teig hófst fjörið á ný. Guli teigurinn var einum metra framan við föstu mælinguna sem greindi nákvæma lengd brautarinnar. Flaggið á miðri flötinni. Sú hugmynd kom upp að senda drónann á undan til að skoða brotin í flötinni en eftir nokkuð karp vorum við sammála um það væri kannski fulllangt gengið.
 
Við vorum ekki nema 5:05 að fara 18 holurnar. GPS úrið og snjallsíminn voru sammála um að okkar maður hefði átt góðan dag á vellinum og fengið 40 punkta. Forgjafarlækkun. Jess. Mikil gleði. Allar þessar mælingar sem höfðu tekið óratíma voru að skila sér. Gamla skorkortið reiknaði ekki punktana sjálft. Það þurfti að bíða niðurstöðu golf.is. Það var ekki fjarri lagi að okkar maður væri í toppbaráttu.
 
Að leik loknum var stöðunni flett upp á golf.is. Okkar mann var ekki að finna meðal þeirra efstu. Hann var neðst á listanum og rauður punktur við hliðina á nafninu.
 
Það þarf víst að skrifa undir skorkortið með gamla blýantinum sem reiknar ekki punktana sjálfur.

Margeir Vilhjálmsson.