Kylfukast: Smartlands aumingjar!
„Hvað er þetta eiginlega með þig? Á að fara flytja Kylfukastið á Smartlandið? Djöfull ertu orðinn soft“. Nokkrir af tryggustu lesendum Kylfukasts hafa látið mig fá það óþvegið. „Enginn djús í þessu“. „Á bara að láta menn komast upp með allan þennan aumingjaskap og enginn segir neitt“?
Sumir hafa af því mikla ánægju þegar Kylfukast atast í hæstvirtum forseta Golfsambandsins. Flestir þeirra eiga það sameiginlegt að hafa kosið hann til forystu, ekki bara einu sinni, heldur þrisvar. Eru svo bara óánægðir með allt. En það er í þessu eins og öðru þar sem fólk er kosið til forystu. Þeir kjörnu eru þar í krafti þeirra sem greiddu atkvæðin. Alveg sama hvað tautar og raular. Eina leiðin til að mótmæla er að kjósa einhvern annan eða bara bjóða sig fram. Það gerði ég einu sinni. Skíttapaði. Það eina sem gerðist í framhaldinu var að leikreglunum var breytt svo ekki væri hægt að bjóða sig fram óvænt til að styggja þá sem að völdum sitja.
Eitt og annað hefur truflað golfforystuna fyrir utan veðrið á þessu golfsumri. Búið er að eyða milljónum í endurnýjun á vefnum golf.is. Nýr vefur var settur í loftið en sá gamli steig aftur upp frá dauðum á þriðja degi. Slíkir voru gallar þess nýja að fólk sem ætlaði að bóka sig í rástíma í Grafarholti fékk rástíma á Jaðarsvelli á Akureyri. Kona að nafni Guðrún með 25 í forgjöf í ónefndum golfklúbbi á höfuðborgarsvæðinu hét skyndilega Haraldur, var komin í golfklúbb á Austurlandi með forgjöfina 15. Þessu var nú bara sópað undir teppið. Veðrið kom til bjargar. Nýr vefur bíður betri tíma. Vonandi var milljónunum sem í þetta fóru ekki kastað á glæ.
Svo er það bansettur fótboltinn. Hann er að trufla allt. Íslandsmót unglinga í höggleik fór fram í Leirunni um síðustu helgi. Á fyrsta keppnisdegi var úr vöndu að ráða. Íslenska landsliðið átti leik gegn Nígeríu. Símar framkvæmdastjóra golfklúbba, golfkennara og mótshaldara stoppuðu ekki. Aðallega vegna áhyggjufullra foreldra sem ætluðu að vera kylfuberar fyrir börnin sín en vildu gjarnan líka fylgjast með leiknum. Gróusögur segja að maður sem svipar mjög til þjóðarleiðtoga í Asíu hafi lagt til að leik yrði frestað vegna veðurs meðan knattspyrnuleikurinn færi fram. Keppendur yrðu kallaðir í hús. Gætu horft á leikinn. Svo yrði keppni áfram haldið. Tillagan féll í grýttan jarðveg í Leirunni og sáttaniðurstaðan var að kylfuberum var heimilað að horfa á leikinn í gegnum farsíma sína. Ótrúlegt. Ég bíð spenntur eftir að þetta kerfi verði tekið upp hjá Evrópska golfsambandinu. Ekkert golf meðan EM 2020 í knattspyrnu fer fram.
Mótið fer í sögubækurnar því aldrei áður hafa jafn margir kylfingar fengið frávísun úr einu Íslandsmóti fyrir að mæta ekki til leiks. Jafnvel leikmenn sem áttu möguleika á Íslandsmeistaratitli létu hjá líða að mæta til leiks á lokadegi. Einu sinni voru viðurlögin við slíkri óvirðingu leikbann. Einhverjir af þeim sem eldri eru vilja meina að unglingar í dag séu aumingjar. En það læra börnin sem fyrir þeim er haft og kannski rétt að þeir sem stjórna líti í eigin barm.
Mesti aumingjaskapurinn í íslensku golfi liggur ekki hjá unglingunum sem það stunda. Hann er hjá GSÍ. Fyrir hartnær 20 árum var fyrst boðið uppá beinar útsendingar frá Íslandsmótinu í golfi og gerður var þáttur um hvert einasta mót sem leikið var á stigamótaröðinni í mörg ár(fyrst Toyota, svo KB banka, en er nú Eimskipsmótaröðin). Við fengum að sjá alla okkar bestu kylfinga í sjónvarpsþáttum sem gerðir voru undir stjórn Páls Ketilssonar og Jóns Hauks Jenssonar. Þættir um golfmót þeirra bestu á Íslandi í fjölda ára. Þá vissi almenningur hverjir voru okkar bestu kylfingar og hvernig þeir litu út í sjón. Í dag er ekkert. Ágætur piltur sem heitir Hlynur gerir þætti um sjálfan sig og golf. Fínir þættir sem dægradvöl. En þeir eru ekki um afreksgolf. Í sjónvarpi í dag er meira segja sýnt frá Inkasso deildinni í knattspyrnu. Fyrsta beina útsendingin frá knattspyrnuleik í Njarðvík. Halló!
Framundan eru meistaramótin og Íslandsmót í höggleik í Vestmannaeyjum. Bongó blíða framundan og enginn þekkir neinn sem þar keppir. Afreksgolf í sjónvarpi á Íslandi dó með túbusjónvarpinu.
Hápunktur golfsumarsins til þessa var heimsókn Anniku Sörenstam til landsins. Þvílíkur hvalreki. Hafi aðstandendur kæra þökk fyrir.
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson