Kylfukast: Sjálfstætt Skotland.....
Það væri áhugavert að vita hversu margir íslenskir kylfingar hafa leikið golf í Skotlandi. Ég er hlutdrægur í mati mínu en Skotland er Mekka golfsins. Enginn alvöru kylfingur ætti að missa af því á lífsleiðinni að ferðast til Skotlands og leika golf. Við búum svo vel að geta ferðast í beinu flugi til helstu borga Skotlands. Flugið tekur ekki nema rétt um 2 klukkustundir og á öðrum tveimur til þremur er hægt að koma sér útúr flugstöðinni og út á golfvöll.
Sérkenni Skotlands eru strandvellir (e. links). Þeir eru byggðir milli sandhóla eru harðir með stórar flatir og djúpar glompur. Á völlunum er vindasamt og ekki er óalgengt að besta verkfærið í 60 metra innáhögg sé pútterinn.
Úrvalið af góðum strandvöllum er mikið. Sé allt lagt saman, gæði valla, gistingar, veitingahúsa og heildarupplifun er St. Andrews yfirburðasvæði. Í og við bæinn sjálfan eru um 10 strandvellir og í næstu bæjum sem stutt er að ferðast til annað eins og rúmlega það. Kaupa má viku eða þriggja daga aðgang að völlunum í bænum. Gamli völlurinn (e. Old Course) er þar undanskilinn. Enginn ætti þó að sleppa því að taka þátt í lottóinu (e. ballott) um teigtíma á Gamla vellinum. Það er einfalt og niðurstöðurnar birtar á netinu. Vallargjaldið er á bilinu 20 – 40 þúsund eftir árstíma, sem verður að teljast viðunandi fyrir einstaka upplifun. Völlurinn er lokaður alla sunnudaga.
Samanborið við golfferðir til heitari landa eru Skotlandsferðirnar dýrari. Oftast er dvalið í skemmri tíma, þrjá til sex daga. Veðrið er líka mun nær því sem það er á Íslandi. Í mars og október fást oft betri kjör á skoskum golfvöllum en veðrið er lotterí. Ég hef leikið golf í báðum þessum mánuðum í 20 stiga hita og logni. Einnig í 5 stiga hita, hávaðaroki og rigningu.
Og bara svo það sé á hreinu þá erum við að tala um Skotland ekki England. Tvennt ólíkt. Hvað golf varðar þá er Skotland sjálfstætt og hefur alltaf verið.
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson