Kylfukast

Kylfukast: Jarðarför í paradís
Þriðjudagur 31. júlí 2018 kl. 09:42

Kylfukast: Jarðarför í paradís

Vestmannaeyjar eru paradís á jörð. Kyngimagnaður staður og viðmót Eyjamanna einstakt. Þrátt fyrir galla Landeyjahafnar þá hefur hún gert kraftaverk fyrir paradísina. Ef einhver annar en Árni Johnsen hefði komið með hugmyndina um göng til Eyja þá væru þau núna veruleiki.
 
Golfvöllurinn skartaði sínu fegursta á Íslandsmótinu í höggleik. Forréttindi að fá að leika með þeim bestu. Miðað við það sem ég hef reynt á þessu ári þá má auðveldlega færa rök fyrir því að 18.000 krónu þátttökugjaldið í Íslandsmótinu sé réttlætanlegt vallargjald fyrir 18 holur á golfvellinum. Þessu hafði ég gleymt enda lék ég æfingahringinn fyrir þetta Íslandsmót árið 2006. Skömm að segja frá því.
 
Hringur á Kingsbarns golfvellinum rétt utan við St. Andrews í Skotlandi kostar lítil 268 bresk pund. Á gengi dagsins eru það 37.000 krónur. Völlurinn er frægur fyrir að þar eru engir meðlimir. Hann var opnaður árið 2000. Á innan við þremur árum voru árlegar tekjur af sölu vallargjalda orðnar 3 milljónir punda. Völlurinn er opinn frá maí og fram í nóvember. Vallargjald samkvæmt gjaldskrá GV, er 7.500 kr, en hjón sem eru meðlimir í golfklúbbi innan GSÍ geta leikið 18 holu hring fyrir 9.000 kr. Gjöf, en ekki gjald ef þið spyrjið mig.
 
Á árum áður er ég var tíður gestur í Vestmanneyjum var þetta mjög einfalt. Lanterna að borða svo á Lundann í einn eða fleiri kalda. Í dag er vart þverfótað fyrir úrvals matsölustöðum. Slippurinn er þar fremstur í flokki af þeim sem ég prófaði, Gott frábær staður með hollustufæði og 900 grillhús er klassík. Brugghús bræðranna kórónar þetta alltsaman. Það er einfalt að halda sína eigin þjóðhátíð í Eyjum þegar manni sjálfum hentar. Í Vestmannaeyjum eigum við golfparadís á heimsmælikvarða en kunnum ekki að markaðssetja hana.
 
Íslandsmótið í höggleik um liðna helgi olli mér jafn mikilli sorg og sjá Ísjakann í Eyjum orðinn að hárgreiðslustofu.
 
Í Morgunblaðinu segir orðrétt: Mótið var góð auglýsing fyrir golf á Íslandi, enda æsispennandi allt til loka. Völlurinn á Vestmannaeyjum var gríðarlega góður og vallarstæðið auðvitað einstakt og fór allt mótshald afar vel fram.
 
Allt satt og rétt eins og annar sannleikur í Mogganum ef okkur er sama um smáatriðin eins og að búningsklefar séu frekar nýttir sem geymslur fyrir golfsett og gosdrykki, að þátttakandi komist athugasemdalaust upp með vegna skapvonsku að hefja leik og ljúka holu einsamall  á undan sínum ráshópi og GSÍ jakkarnir séu fleiri en áhorfendurnir þá hefur jarðarförin þegar farið fram. Grafskriftina geta áhugasamir nálgast á heimasíðu GSÍ. https://issuu.com/golf-iceland/docs/framtidarsyn/1?e=1385373/31805588