Kylfukast

Kylfukast: Forgjafartalibaninn
Mánudagur 8. júní 2015 kl. 07:00

Kylfukast: Forgjafartalibaninn

Eins og fram hefur komið í Kylfukasti er slór við leik (e. slow play) eitt helsta vandamál golfíþróttarinnar á heimsvísu.
 
Fyrir rétt rúmlega 10 árum var hafist handa við að taka í gagnið á Íslandi EGU forgjafarkerfið.  Kerfið gengur út á það að forgjöf kylfinga er reiknuð út frá Stableford punktakerfi. Í stuttu máli þýðir þetta það að allar „sprengjur“ eru teknar út úr skori leikmanns. Kostir þessa kerfis áttu t.d. að vera þeir að þegar útséð væri með að leikmaður fengi punkt á holu, þá ætti hann að taka upp boltann og það ætti að flýta leik.
 
Reyndin hefur hinsvegar orðið önnur. 
 
Á Íslandi var sett upp forgjafarskráningarkerfi á vefnum www.golf.is. Vefurinn var ekki fullkomnari en það, að þegar leikmaður tók upp bolta (fékk x á holu), þurfti að skrá inn tölulegt gildi á vefnum.  Eina örugga talan sem hægt var að nota til að tryggja leikmaður fengi alls ekki punkt var talan 10.  Þannig varð út að leikmenn sem tóku upp bolta í mótum fengu skráð á viðkomandi holu 10 högg.  Þannig gat leikmaður sem annars var að leika ágætis golf, jafnvel með 36 punkta, en hafði tekið upp á þremur holum fékk mjög hátt höggleiks-skor, sem allir gátu séð á opnum vefnum. 
 
Þetta þótti ekki gott afspurnar og íslenskir leikmenn leggja töluvert á sig til að ljúka leik á holum á 7, 8 eða 9 höggum.  Bara til að fá ekki bévítans 10 á skorkortið.  
 
Íslenskir kylfingar eru upp til hópa forgjafartalibanar. Allur golfleikur snýst um að skila inn punktaskori á www.golf.is, ýmist til hækkunar eða lækkunar á forgjöf. Þessir forgjafartalibanar gera lítið annað en að tefja leik á golfvöllum landsins, þar sem leikur þeirra á völlunum tekur meiri tíma en heimsmeistarakeppnin í golfi.
 
Í mínum vinahópi sýnist mér nokkuð nærri lagi að menn séu fastir á einhverju róli í forgjöfinni sem er á þriggja högga bili. Þá er verið að horfa yfir 6 ára tímabil. Það skal líka haft í huga að skv. EGA kerfinu er einungis hægt að hækka að hámarki um 2 heila á einu leiktímabili. Háforgjafarkylfingar geta lækkað verulega innan leiktímabils - úr 30 í 18 er vel þekkt, enda lækka kylfingar yfirleitt í forgjöf í stórum stökkkum. En heildarmyndin hjá vönum kylfingum er þannig að þeir eru fastir á ákveðnu getustigi. Ef einhvert manngrey með 12 í forgjöf lendir í þeirri ólukku að eiga draumahring uppá tvo yfir pari fær hann umsvifalaust 3 heila í lækkun og er skyndilega kominn með 9 í forgjöf.  Forgjöf sem að tekur hann restina af sumrinu, eða 30 hringi að ná aftur upp í 12.
 
Forgjafarkerfið er um margt gott en í því eru líka stórfelldir gallar. Gallar sem bókstafstrúarmennirnir á Íslandi taka alltof alvarlega. 
 
Forgjöf hjá vönum kylfingum á að endurskoða einu sinni á ári. Hana á að gefa upp í upphafi leiktímabils. Það er forgjöf leikmannsins fyrir árið.  Í lok leiktímabils er forgjöfin metin til hækkunar eða lækkunar miðað við árangur ársins. Vilji menn svindla, þá svindla þeir, en slíkir verða fljótt útskúfaðir.
 
Holukeppni er miklu skemmitlegra leikform en höggleikur. Séu 4 saman í holli - þá sem betri bolti. Holukeppnin er hraðari leikur. Leikmaður sem er búinn að drulla uppá bak með því að setja tvo bolta  í Bergvíkina meðan mótherjinn á tvo pútt til að para, getur með góðri samvisku gefið holuna og saman fara menn á næsta teig og halda áfram spennandi keppni. 
 
Hver og einn leikmaður ber ábyrgð á sinni forgjöf. Finnið ykkur tölu sem ykkur finnst eðlileg miðað við ykkar getu og notið hana.  Ef þið verðið betri - lækkið hana. Ef þið eruð að gefa eftir - hækkið hana.
 
Hættið að vera talibanar og spilið hraðar. 3:59 er ekki bara tala. Það er lífsstíll. Forgjöf er hugarástand.
 
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson