Kylfukast: Fimmtán dagar í framboði
Fyrir akkúrat mánuði síðan tilkynnti ég hér á vefsíðunni kylfingur.is um framboð mitt til embættis forseta GSÍ. Þá voru rúmlega tvær vikur til Golfþings sem haldið var 23. nóvember síðastliðinn. Þeir sem fylgjast með umræðunni vita að ég skíttapaði í kjörinu og var ekki sáttur við þá meðferð sem framboð mitt fékk á þinginu. Um leið hefur þessi mánuður verið einn sá lærdómsríkasti á lífsleiðinni og finnst mér rétt að deila lífsreynslunni með lesendum vefsíðunnar kylfingur.is.
Golfsamband Íslands hefur starfað í 70 ár. Aldrei í sögunni hefur mótframboð í forsetaembætti borist gegn tillögu sitjandi stjórnar. Fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa lög sambandsins má fljótt sjá að ekki er gert ráð fyrir að almennt sé verið að bjóða sig fram til stjórnarstarfa fyrir sambandið. Þetta er bara ákveðið fyrirfram. Ég sendi nú samt tilkynningu um framboðið til GSÍ og bað um að henni yrði komið á framfæri við aðildarklúbba sambandsins. Það var gert samviskusamlega, bæði með því að senda út tölvupóst til golfklúbbanna og svo með því að birta tilkynninguna á vef sambandsins www.golf.is.
Ég sendi einnig stjórn GSÍ bréf þar sem ég óskaði eftir að fá að sitja Golfþing með vísan í 6. grein. Þingsetu án atkvæðisrétts. Beiðnin var samþykkt.
Það gerðist svo sem lítið í millitíðinni, en símtöl fóru að berast síðustu dagana fyrir þing. Ég er nú það barnalegur að ég hefði talið það algerlega gefið að menn sem maður hefur sjálfur unnið með í golfhreyfingunni og hafa sí ofan í æ verið kvartandi undan getuleysi GSÍ væru „gefin“ atkvæði, þá sérstaklega þeir sem eru vinir manns til fjölda ára. En ó nei. Hérna erum við komin í íþróttapólitík. Þar eru engir vinir. Fékk að heyra það frá einum að hann vissi ekki hvort hann ætti að kjósa mig af því ég væri vinur hans, eða hvort hann ætti að kjósa það sem væri best fyrir klúbbinn. Já, skrítin tík, pólitík. Framboðið var klárlega flokkað af einhverjum sem ógn. Ógn við kerfi sem enginn er ánægður með en þar sem allir hafa svo fína stöðu innan þess þá er um að gera að breyta því helst ekki.
Þegar á Golfþingið kom er ekki frá því að ég hafi upplifað smá spennu. Allavega fannst mér töluvert margir sem ég þekki úr hreyfingunni helst ekki vilja heilsa. Hélt á tímabili að ég væri kominn með bráðsmitandi sjúkdóm eða ég lyktaði hrikalega. Aðrir komu til mín þegar lítið bar á og sögðu mér sértaklega að þeir myndu kjósa mig. Merkilegt nokk allir frá klúbbum sem myndu flokkast undir að vera „smærri“ klúbbar.
Golfþing kýs kjörnefnd skv. tillögu stjórnar GSÍ. Ekki eru til neinar skráðar starfsreglur fyrir kjörnefndina skv. lögum GSÍ. Nefndin var kosin fyrir hádegi og hafði sama tíma og aðrar nefndir þingsins til að sinna störfum sínum. Ég bjóst við því að nefndin myndi kalla mig til viðtals eða með einhverju móti eiga við mig samtal, þar sem öllum sem sátu þingið var ljóst í hvaða tilgangi ég var þar. Í stuttu máli virti nefndin mig ekki viðlits. Ég hef heyrt því hent fram sem skýringu að nefndinni hafi ekki borist „formleg“ tilkynning um framboð mitt. Það er mjög sérstakt að sú tilkynning sem ég sendi GSÍ formlega - og GSÍ sendi aftur út samviskusamlega að minni beiðni, hafi ekki flokkast sem formleg tilkynning um framboð.
Þegar afgreiðslu nefndarstarfa lauk var komið að kjörnefnd að gera grein fyrir störfum sínum. Þar mætti í pontu formaður kjörnefndar Ingi Þór Hermannsson GO og gerði grein fyrir því að kjörnefnd sem auk hans skipuðu Garðar Eyland GR og Elsa Valgeirsdóttir GV mælti einróma með því að Haukur Örn Birgisson yrði kjörinn. Sérstaka áherslu lagði hann á orðin einróma. Ég hef aldrei vitað neina nefnd ekki vera einróma ef hún hefur bara eitt formlegt framboð til að vinna úr. Ég þurfti því eins og þingforseti hafði leiðbeint mér um að rísa úr sæti mínu og gera grein fyrir mótframboði mínu. Sem ég og gerði. Fékk 7 mínútur til að segja þinginu frá sýn minni á framtíð sambandsins og golfhreyfingarinnar á Íslandi. Þar fór ég yfir þau þrjú málefni sem ég hef áður kynnt á vefsíðunni www.kylfingur.is. Að lokum bað ég þá fulltrúa í salnum sem hefðu ekki náð 30 ára aldri að rétta upp hönd. Þeir reyndust vera tveir. Það ýtir enn undir þá kenningu mína að golfhreyfingin sé í raun fyrst og fremst afþreyingarmiðstöð fyrir karla 50+. Ekki að það sé eitthvað slæmt, alls ekki. Það verður bara enginn á þeim aldri atvinnumaður í golfi eða fyrirmynd golfiðkenda. Frambjóðandi stjórnarinnar fékk svo einnig 7 mínútur til að kynna sitt framboð, en hann hafði auk þess fengið sviðsljósið í um hálftíma þegar tekin var til umræðu þingsályktunartillagan „Stefna golfhreyfingarinnar á Íslandi 2013-2020“. Það er eina þingsályktunartillaga í sögu Golfsambandsins sem hefur verið prentuð í lit í 40 síðum. Ég hvet alla til að lesa hana. Fyrir mig er hún efni í sérgrein.
Eftir ræðuhöld frambjóðendanna var komið að kosningu. Þá var kölluð til kjörbréfanefndin (það er nefndin sem hefur að gera með kjörgengi fulltrúa). Á þessu þingi var að ég held metfjöldi fulltrúa í sögunni. 161 atkvæði í boði frá 44 golfklúbbum. Ég hef setið nokkur þing og man aldrei eftir að hafa séð slíkan fjölda svo ljóst var að menn voru búnir að vinna heimavinnuna sína í kjörbréfasmölun. Allt í góðu með það. Þingforseti gerði mönnum grein fyrir hvernig væri gengið út um eina hurð og atkvæðaseðlar sóttir og svo aftur gengið inn um aðra og atkvæðum skilað í kjörkassa. Þetta gekk snurðulaust fyrir sig, sérstaklega vegna þess að menn höfðu verið það forsjálir að forprenta kjörseðlana með nöfnum beggja frambjóðendanna. Ég held að það steindrepi kenninguna um að framboð mitt hafi ekki verið formlega tilkynnt. Tvennt vakti einnig athygli mína. „Kjörkassinn“ var í raun bakpoki framkvæmdastjóra Golfsambandsins sem hann gekk með um salinn og safnaði atkvæðaseðlum í og mótframbjóðandi minn hafði orðið sér úti um atkvæðaseðil sem hann setti samviskusamlega í bakpokann. Ég hafði sagt það í 7 mínútna ræðu minni að þetta snérist um stefnu - ekki atkvæðasmölun. Stóð allavega við minn enda á því. En þeir sem hafa áhuga á að lesa lög GSÍ geta þar séð að sitjandi stjórn hefur ekki atkvæðarétt á Golfþingi. Það er þó ekkert heldur sem bannar sitjandi stjórnarmönnum að verða sér úti um kjörbréf, en það segir meira um mennina en lögin.
Þegar kom að talningu atkvæða ákvað ég að fá heimild hjá þingforseta til að eiga fulltrúa við talninguna þar sem það var engin leið að vita hversu mörg hólfin væru á bakpokanum eða jafnvel hvort það hefðu verið forprentaðir atkvæðaseðlar með „X“ inu á. Sú heimild var fúslega veitt og Sigurður Garðarsson, formaður GS, var fulltrúi minn.
Niðurstaðan var svo stórtap 120 gegn 29. Svona svipað eins og ég hefði eytt tímanum sem fór í kosninguna í að spila körfubolta við vin minn Herbert Arnarson.
Það sem á eftir fylgdi var svo eins og eftir skrifuðu handriti. Kjörnir voru fulltrúar í stjórn GSí. Guðmundur Friðrik Sigurðsson fyrrverandi formaður GK hætti eftir 10 ár í stjórn og inn kom Bergsveinn Hjörleifsson sem hættir sem formaður GK á næsta aðalfundi. Gott system hjá Keilismönnum - fyrst formaður GK og svo í stjórn GSÍ. Kristín Guðmundsóttir GÖ/GR tók við af nöfnu sinni Magnúsdóttur úr GR. Annað óbreytt. Fyrr á þinginu hafði fráfarandi forseti GSÍ Jón Ásgeir Eyjólfsson afhent þeim gullmerki GSÍ fyrir störf þeirra í stjórninni og því þótti vel við hæfi að nýkjörinn forseti Haukur Örn Birgisson gerði það að fyrsta embættisverki sínu að afhenda fráfarandi forseta Jóni Ásgeiri Eyjólfssyni „gullkross“ GSÍ, því það dugar náttúrlega ekkert venjulegt gullmerki fyrir fráfarandi forseta.
Þannig gat sitjandi stjórn GSÍ - hampað sjálfri sér á þinginu og dæmt eigin störf með því að afhenda fráfarandi stjórnarmönnum heiðursmerki og þingið klappaði með. Allir voða glaðir.
Ég glotti út í annað. Aldrei hefði ég veitt fráfarandi forseta „gullkross“ GSÍ. Finnst það bara rangt. Það er tími fyrir það síðar komi í ljós að þrekvirki hafi verið unnin í forsetatíð hans. Eins og það lítur út fyrir mér í dag er það fjarri lagi.
Fyrir mig varð framboðið ein mesta lífslexía ævinnar og jafnframt staðfesting á því að fólk er mjög hrætt við breytingar. Þeir sem hafa komið sér þægilega fyrir eru tilbúnir að ganga nokkuð langt til að geta setið áfram að sömu þægilegheitunum. Á meðan þeir sitja þar, endurskrifa ég vinalistann.
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson