Föstudagur 3. ágúst 2018 kl. 11:52
Kylfukast: Bjórþambband Íslands
Ég var rétt búinn að spóla uppúr Herjólfi síðastliðinn laugardag með skottið á milli lappanna. Sendur heim snemma þriðja Íslandsmótið í röð. Fyrst golfið gekk svona illa væri þá ekki við hæfi að setja Íslandsmet á leiðinni Landeyjahöfn - Reykjavík. Kveikti á græjunum og var við það að þrampa pedalanum í gólfið þegar frá grafalvarlegri rödd formanns foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum heyrist: „Svona mál endurspeglar svolítið þessa menningu sem er að taka yfir. Golf á Íslandi hefur birt áfengisauglýsingar ólöglega í mörg ár. Svo eru auðvitað félögin byrjuð að fylgja á eftir og þessi auglýsing frá Selfossi er þannig að þar er brennivín algerlega í öndvegi og það er eins og golfíþróttin sé orðin algert aukaatriði“.
Úff. Stemmningin fyrir hraðametinu hvarf eins og dögg fyrir sólu. Hvaðan kom þessi kall? Var nokkuð verið að grínast. Ég glotti út í annað og hugsaði til Hlyns Geirs þar sem hann stóð á 17. teignum í Eyjum og veifurnar blöktu við hliðina á honum. Okkar bjór.
Taldi að málið væri stormur í vatnsglasi. En aftur er fréttin mætt í fimmtudagshádegi á Bylgjunni. Vitnað í okkar besta forseta um að GSÍ telji sig fara að reglum en forsetinn, framkvæmdastjórinn og ritstjóri Golfs á Íslandi hefðu allir hafnað beiðni um viðtal. Alltaf skal það vera eins með þessa fréttamenn. Alltaf með allt niðrum sig. Af hverju var ekki haft samband við Kylfukastið. Þar á bæ yrði mönnum ekki neitað um viðtal. Viðtalið yrði jafnvel svo ítarlegt að það þyrfti að gera heilan þátt um svarið.
Mál eins og þetta eru alltaf erfið og væntanlega er lausn forsetans, framvæmdastjórans og ritstjórans sú skynsama. Að þegja bara. Ávirðingunum er illa hægt að svara svo vel sé. Hægt væri að snúa út úr svörunum á alla kanta.
Hvað eru eiginlega Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum? Þau eru með heimasíðu. Þar kemur fram að markmið samtakanna sé að berjast gegn birtingu ólöglegra áfengisauglýsinga og bættu auglýsingasiðferði með sérstakri áherslu á vernd barna og unglinga. Á heimasíðunni fæst ekki betur séð en sami formaður hafi setið við völd í samtökunum allt frá árinu 2008. Næstum því einræði.
Þegar ein samtök sem starfa hér á landi eru farin að ýja að því að næst stærsta íþróttahreyfing landsins sé orðin það afvegaleidd að þar sé brennivín í öndvegi og íþróttin algert aukaatriði þá er kannski rétt að spyrna aðeins við fótum og láta menn aðeins „heyra´ða“. En um leið vaknar líka sú spurning um hver andskotinn sé eiginlega að hjá fréttastofu sem vill láta taka sig alvarlega að nenna að japla á máli í heila viku sem snýst um ekki neitt. Golfsambandið hefur það framyfir öll önnur sérsambönd að eiga glæsilegt tímarit sem gefið hefur verið út í þúsundum eintaka í fjölda ára. Áfengisauglýsingar í því blaði eru á engan hátt öðruvísi en áfengisauglýsingar sem birtast í öðrum tímaritum hérlendis, enda auglýsendurnir sjálfir fullkomlega meðvitaðir um hvað er löglegt og hvað ekki. Smáa letrið sem segir 2,25% eða þaðan af minna reddar að sjálfsögðu málunum. Fáránlegt eður ei. Lögin eru bara svona.
Barna og unglingastarf golfhreyfingarinnar er til mikillar fyrirmyndar eins og hjá öðrum sérsamböndum innan ÍSÍ. Það snýst ekki um að kynna áfengi fyrir börnum. Það vita allir sem að barna og unglingastarfi koma. Að reyna að blanda þessu tvennu saman er fjarstæða.
Það vill svo til íþróttahreyfingin öll er að langstærstum hluta rekin í sjálfboðavinnu. Sveitarfélög og ríki hafa aðeins bolmagn til að gera svo mikið. Rekstrarfé þarf að koma frá iðkendum (eða foreldrum þeirra), auglýsendum og stuðningsaðilum. Einhverjir auglýsendur hafa gert sér grein fyrir því að sjálfboðaliðunum og foreldrunum finnst kannski gott að setjast niður í lok dags og fá sér „einn kaldan“ og slappa af. Það er raunveruleikinn sem við búum við. Alveg sama þó einhver Árni segi dojójójójóng…..
Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson