Kylfukast

Kylfukast: Allir vildu Ólafíu kveðið hafa!
Fimmtudagur 8. desember 2016 kl. 12:38

Kylfukast: Allir vildu Ólafíu kveðið hafa!

Glæsilegur árangur Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur hefur vart farið framhjá einum einasta landsmanni. Loksins hefur íslenskum kylfingi tekist að komast yfir þröskuldinn á mótaröð þeirra bestu í Bandaríkjunum. 

Hver sérfræðingurinn á fætur öðrum hefur verið fenginn til að tjá sig um þvílíkt tækifæri er hér í vændum. Stöð 2 var með frábæra úttekt á málinu í fréttum gærdagsins. 
Forseti Golfsambandsins var líka mættur og sagðist bíða eftir símtölum vegna styrkveitinga, því sannarlega væri útgerðin framundan kostnaðarsöm. Það er rétt. Veiðin er sýnd, en ekki gefin.
 
Þegar stórir sigrar vinnast gleymist oft hverjir hafa staðið bakvið tjöldin. Árið 2012 var stofnaður afrekssjóðurinn Forskot gagngert til að styðja við bakið á kylfingum sem reyna vildu fyrir sér í atvinnumennsku. Þessum sjóði má þakka að okkar bestu kylfingar hafa oftar fengið tækifæri til að spreyta sig meðal þeirra bestu. Kylfukast gagnrýndi einhverntíma sjóðinn fyrir ógegnsæi í styrkveitingum, en víst er að úr vöndu er að ráða þegar um meira er sótt en til skiptanna er.
 
Nú brennur svo við að fyrsti kylfingurinn kemst yfir þröskuldinn. Erfiðið ber ávöxt. Ekki bara vinna kylfinganna, þjálfaranna og aðstoðarmannanna, heldur líka framlag styrktaraðilanna sem tilbúnir voru að legga í langferð, þar sem ekki var á vísan að róa.  Kærar þakkir Icelandair Group, Eimskip, Íslandsbanki, Valitor, Vörður, GSÍ og fagráð Forskots. 
 
Nýr kafli í golfsögu Íslands er framundan. Ég hlakka til að fylgjast með glæsilegum fulltrúa okkar á LPGA mótaröðinni. 
 
Með golfkveðju,
 
Margeir Vilhjálmsson.