Kylfukast

Kylfukast: Forréttindi
Miðvikudagur 28. október 2020 kl. 10:14

Kylfukast: Forréttindi

Langt golfsumar er að líða undir lok. Þrátt fyrir hita í kylfingum vegna lokana á golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu á haustdögum var Covid happafengur fyrir íslenska golfklúbba. Golfþyrstir Íslendingar komust ekki úr landi. Mál málanna var aðgengi að völlunum. Alltof oft var ómögulegt að fá rástíma. Grunsemdir vöknuðu um að snjallir forritarar í hópi kylfinga hafi laumað veiru inn í hið misvinsæla Golfbox og þannig tryggt sér öruggan rástíma á fyrirfram ákveðnum tímum dag eftir dag, meðan aðrir sátu sveittir við tölvuna á kvöldin og vonuðust til að vinna í rástímalottóinu.

Í 20 ár hafa félagsmenn stærstu golfklúbba landsins getað bókað rástíma á netinu. Um aldamótin var aðgangur fólks að internetinu eða kunnátta fólks í notkun þess var ekki meiri en svo að rástímabókanir fóru til jafns fram í gegnum síma. Í dag er þetta tölvuslagur. Einhvern veginn hefur hann gengið upp undanfarin ár en nú í vor fór þetta allt til andskotans. Eftirspurnin var bara of mikil. Ekki skrýtið. 

Rástímareglur golfklúbbanna eru að því er virðist greipt í stein. Aðalmálið snýst um með hversu löngum fyrirvara eigi að leyfa félagsmönnum að bóka rástíma. Niðurstaðan í flestum tilvikum virðist vera 3-7 dagar. Svo er kerfið látið ráða hvaða útgáfur er hægt að hafa. Ef tölvan segir nei, þá er svarið bara nei.

Íslenskir kylfingar hafa í mörg ár komist upp með að bóka sig í rástíma og mæta svo ekki til leiks. Reynt hefur verið að beita ýmsum refsingum en þær hafa bitið illa. Kylfingur bókar á mánudegi rástíma fyrir næsta fimmtudag. Mætir svo ekki því veðrið er leiðinlegt. Svona framkoma er ekki bjóðandi. Fyrir vikið er samt öruggasta leiðin til að komast í golf hjá klúbbunum á höfuðborgarsvæðinu einfaldlega að mæta. Það er alltaf einhver sem hættir leik eða mætir ekki - og pláss losna í ráshóp. Biðin er yfirleitt ekki meiri en 20 mínútur.

„Er eðlilegt að þeir sem leika 30 hringi á sumri greiði sama gjald og þeir sem leika yfir 100 hringi? Eiga kylfingar að greiða félagsgjald og svo hóflegt spilgjald í hvert skipti sem þeir mæta á völlinn?

Málið er ekki nýtt af nálinni, en hér er gripið niður í ræðu Gests Jónssonar, formanns GR, frá árinu 2001:

„Það er því ljóst í mínum huga að aðgangur GR verður takmarkaður í framtíðinni og innan fárra ára verða það talin nokkur forréttindi að vera félagsmaður í GR. Reyndar er þróunin sú að ég tel að allir golfklúbbarnir á höfuðborgarsvæðinu muni fyllast á næstu árum og íbúar höfuðborgarsvæðisins verði að leita austur fyrir fjall eða til staða eins og Akraness og Keflavíkur til þess að komast í golfklúbb. Við þessar breyttu aðstæður er nauðsynlegt að setja skýrar reglur um það með hverjum hætti menn geti fengið aðgang að klúbbnum. Stjórn GR hefur samþykkt reglur um aðgang að klúbbnum. Þessar reglur eru í sjálfu sér einfaldar enda fer best á því. Makar félagsmanna hafa forgang en að öðru leyti ræður tímaröð umsókna. Þegar reglurnar spyrjast út má reikna með að þær styrki stöðu einhleypra klúbbfélaga á hjónabandsmarkaðnum“.  …… Stjórn klúbbsins hefur þegar markað þá stefnu að GR sækist ekki eftir því að byggja nýja golfvelli. Við höfum sótt um heimild til þess að stækka aðalvöllinn á Korpúlfsstöðum í 27 holur en þar viljum við láta staðar numið. Sýn okkar eru sú að nýr golfklúbbur verði stofnaður í Reykjavík þegar að því kemur að meira land býðst til golfvallagerðar.“

Þessi framtíð sem spáð var fyrir 19 árum er komin. Við sem erum félagsmenn í golfklúbbum á höfuðborgarsvæðinu njótum forrréttinda. Klúbbarnir eru hinsvegar svo þétt setnir að stjórnendur þeirra verða að setjast niður og finna betra kerfi á rástímabókunum en það sem boðið var uppá síðastliðið sumar. Svara þarf ýmsum spurningum um félagsaðild í þétt setnum golfklúbbum. Er eðlilegt að þeir sem leika 30 hringi á sumri greiði sama gjald og þeir sem leika yfir 100 hringi? Eiga kylfingar að greiða félagsgjald og svo hóflegt spilgjald í hvert skipti sem þeir mæta á völlinn? Í stað þess að greiða 120.000 kr. eða þar um bil í árgjald. Væri þá eðlilegt að greiða 80.000 kr. og svo 250-1.000 kr. fyrir hvern leikinn hring. Eftirsóttustu tímarnir væru þá dýrastir. Á að setja kvóta á bestu tímana, þannig að sem flestir fái notið gæðanna til jafns? Á að umbylta þessu alveg og láta sveitarfélögin reka golfvellina á sama hátt og sundmiðstöðvar?

Er lausnin kannski frekar sú að hækka árgjöldin á höfuðborgarsvæðinu verulega í þeirri von að himinhá árgjöld hvetji golfþyrsta frekar í klúbbana í nágrannasveitarfélögunum, Grindavík, Suðunesjum, Þorlákshöfn, Akranesi. Þar er enn nóg pláss. Eða er kominn tími á að fjölga golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu. Nýr völlur með klúbbhúsi kostar í kringum 2 milljarða. Höfum við 800 manns sem eru tilbúin að erlendri fyrirmynd að leggja 2,5 milljónir á mann í uppbyggingarkostnað og svo um 300.000 kr. eða meira í árgjald til að leika á golfvelli þar sem aðsóknin er minni? 

Alger þögn ríkir um þessi mál hjá Golfsambandi Íslands. Meiri áhersla er lögð á að kylfingar setjist ekki á bekki og hugmyndina um að golf sé móðir allra íþrótta. Reykjavíkurborg tilkynnti í október um 20 milljarða framlög í uppbyggingu á íþróttasvæðum í Reykjavíkurborg. Ekki ein einasta króna lögð í golf, næst fjölmennustu íþróttagrein landsins.

Segir kannski allt sem segja þarf um stöðu golfsins án þess að það sé kryddað frekar.

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson