Kylfingur dagsins

Kylfingur dagsins: Fyrstu höggin með steypustyrktarjárni
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 6. apríl 2020 kl. 07:21

Kylfingur dagsins: Fyrstu höggin með steypustyrktarjárni

Kylfingurinn Viggó Haraldur Viggósson byrjaði í golfi árið 1973 og sveiflaði steypustryktarjárni fyrstu dagana. Hann rekur í dag GOLFKLÚBBINN en þar geta kylfingar leikið golf allt árið um kring. Viggó er mikill aðdáandi Grafarholts en hann er kylfingur dagins að þessu sinni.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það? 

Afi og amma, 1973. Hafði þó eitthvað verið að sveifla steypustyrktarjárni undir háspennumöstrunum sem lágu meðfram Hraunbænum. Járnið var ofið með einangrunarlímbandi sem grip og hinn endinn var beygður í þröngan hring. Með þessu slógum við bolta sem einhver skaffaði (Siggi Pé, Christian Þ.?) Við spiluðum svo á milli mastrana. Fyrsta minning mín frá golfvelli er að ég er að leika mér í glompunni við átjándu flötina í Grafarholtinu (ekki þá sem nú er) og einhver karl er gargandi á svölum skálans, ég gæti trúað því að þá hafi ég verið 7 eða 8 ára.  

Helstu afrek í golfinu? 

Nú er fátt um fína drætti. Auðvitað er opnun Golfklúbbsins það besta sem ég hef gert í og fyrri golfíþróttina. Keppnislega séð þá rámar mig í að hafa unnið 1. flokk á Íslandsmóti einhvern tímann (líklega 1987) – það var gaman. Ég varð aldrei sérstaklega góður í golfi, var að enda þetta í 15 til 20 sæti í mótum á efsta stigi – maður var sjálfala í sportinu og fékk í raun enga hjálp… barasta alls enga. Ég man að ég átti vallarmet í Mosó lengi vel, 67 högg. Þetta var á upphaflega vellinum, ég fékk í viðurkenningarskyni Álafoss værðarvoð (appelsínugult var ríkjandi litur í henni… ótrúlegt en satt). Ég hef spilað Grafarholtið á hvítum á 67 höggum í erfiðum aðstæðum, talsverður vindur og þurrkur í langan tíma. En það sem ég er einna stoltastur af eru félagsleg atriði, t.d. eins og að hafa stofnað (með Peter Salmon og Kalla kokk) til Eldri Yngri bikarsins líklega skemmtilegasta golfmót á Íslandi, Grafarkotsbardagans (lítið hrikalega skemmtilegt og harðlokað mót), hafa annast tölvuvinnslu fyrir alþjóðlegmót (Evrópumót unglinga og öldunga) þannig að eftir var tekið í árdaga PC tölvunnar og já stjórnarsetu minni í GR um margra ára skeið.

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum? 

Enginn vafi; ég að leika á Landsmóti í Grafarholtinu árið er 2001 (að mig minnir), annar dagur, ég í þriðja síðasta holli með Úlfari og Tryggva Pé (held ég). Við komnir á 13. holu, það er nokkur vindur á móti, ég á gott upphafshögg og annað höggið er flott, sett‘ann einhverja tvo metra frá. Nema hvað þessir tveir metrar voru til hægri og fyrir ofan holu. Það voru þetta 30 – 40 manns samankomin í kringum flötina og sjónvarpið líka – fyrsti staðurinn á hringnum þar sem var eitthvað fólk. Nema hvað púttið var svo sem ekki flókið. Já einmitt… ég pútta og boltinn var ekkert að hafa fyrir því að stoppa við holuna, raunar ekki heldur á flötinni… nei, nei helvítið á‘onum fór langleiðina niður brekkuna. Ég brokkaði niður til hans og vippa til baka, geri það bara sæmilega (raunar mjög vel miðað við aðstæður) og er nú kannski tvo fyrir neðan holu aðeins vinstra megin … já bara í kjörstöðu. Pútta… er á línu… æi helst til of ákveðið! Boltinn endar kannski tæpan meter fyrir ofan holuna hægra megin … já einmitt.  Nú á ég „sama“ púttið og áður, nema styttra. Ég varla kom við boltann og viti menn hann var ekkert á því að stoppa við holuna frekar en í fyrra skiptið og ekki heldur á flötinni heldur endaði í brekkunni miðri. Síðara vippið var barasta fyrna fínt, þannig að það var tapp‘inn fyrir tvöföldu pari. Æði. Bros til allra. Ég dáinn. (Í sannleika sagt þá veit ég að ég fékk átta á holuna; að ég var á tveimur í fuglafæri, fyrir ofan holu. Hvað nákvæmlega gerðist eftir það er mér týnt). En mig minnir að ég hafi unnið mótið þetta árið … á fyrri níu! Ég varð sumsé Íslandsmeistari… þannig séð.

Hefurðu farið holu í höggi og þá hvar? 

Já, á sjöttu í Grafarholtinu. Ég sló boltann með hægri sveigju þannig að hann lendi á bungunni hægra megin við grínið (gamla flötin) og að boltinn myndi rúlla til vinstri í holu. Og þetta gekk eftir. BANG. Gaman að því.

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með? 

Ætli það séu ekki bestu kylfingar Íslands fyrr og síðar, frá Bjögga, Sigga Pé, Hannesi, Ragga Ólafs, til Úlfars og Bigga Leifs og svo strákana núna, en ég var að leika við Andra og Hadda í vikunni.

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf? 

Nei, nei, alls ekki. En samt hlýtur það að blasa við öllum appelsínugult getur ekki annað en hjálpað til.

Hvað er það sem þú þarf mest að bæta í þínum golfleik? 

Úff hvar á ég að byrja… en jú kannski að hafa trú á verkefnið og að grynnka sveifluna… fletja út botninn. Ég á það til að taka feit högg og þá á ég í vandræðum með vippin af sömu ástæðu, ég á sumsé erfitt með að stjórna botninum á sveiflunni. En sko ég hefði átt að mæla þessi atriði í þátíð. Ég átti í ofnatöldum vandræðum, það er búið.

Hvernig hefur starfsemin í Golfklúbbnum verið í vetur og síðan í Covid19? 

Það er búið að ganga mjög vel. Golfklúbburinn er einstakur staður; við erum veitingastaður, golfskemmtistaður og frammistöðumiðstöð, sannkölluð gleðiverksmiðja. Okkur hefur gegnið vel, segja má að við séum nærri hámarks nýtingu frá desember fram að því að sumartímabilið byrjar. Nú er ég að tala um nýtingu á prýðistíma eða frá 16:00 til lokunar. Þessa fimm eða sex mánuði er vandamálið að við erum með of fáa herma. Restina af árinu er svo vandamálið hvað það er helv… gaman í golfi 

Ég vissi auðvitað fyrirfram að sumartíminn yrði dauður, þannig að vandinn kemur ekki á óvart. Mitt verkefni næsta sumar er m.a. að finna leið eða leiðir til þess að nýta staðinn á dauða tímanum.

Eftir að óværan „skall“ á okkur hefur lífið í Golfklúbbnum breyst mikið. Fyrsta skrefið var að fækka borðum og stólum í húsinu, setja handspritt og hreinsiklúta á öll borð og þrífa snertifleti á herma svæði fyrir hvert holl. Þegar svo samkomubannið var hert þá brugðumst við við með ýmsum aðgerðum; enn fækkuðum við stólum, lokuðum veitingastaðnum að mestu og ýmislegt annað í þeim dúr. Nú geta tveir kylfingar verið í þremur af fimm hermum og þrír í hinum tveimur eða mest 12 manns, svæðið er um 300m2. Gæfa okkar er að það er nægt rými í golfsalnum þannig að fólk er ekki hvert ofan í öðru. Ég ætla að standa vaktina og vona að við klárum verkefnið á næstu vikum.

Viggó Haraldur Viggósson

Aldur: 57 ára

Klúbbur: GR og Golfklúbburinn – þar sem fólk leikur sér

Forgjöf: 2,5  

Uppáhalds matur: Rib eye steik, svo er Helga með fáránlega góðan kjúklingarétt sem er alveg til að deyja fyrir… eða þannig.

Uppáhalds drykkur: Bjórinn efir 18 holur, sérílagi í hita. Samt er Lagavulin besti drykkur í heimi. Probably.

Uppáhalds kylfingur: Ég er ekkert mikið fyrir uppáhalds og eiginlega alls ekki þegar kemur að fólki.

Þrír uppáhaldsgolfvellir? Grafarholtið… lof mér að hugsa aðeins jú Grafarholtið og já Grafarholtið.

Þrjár uppáhalds golfbrautir á Íslandi? Ég hef gaman af holum sem eru sýnd veiði en ekki gefin og þær mega alls ekki vera ósanngjarnar

Erfiðasta golfholan? Líklega eitthvað af „ömurlegum“ par þrjú holum sem hafa verið smíðaðar síðasta áratuginn eða svo  – mér finnst langar par þrjú holur leiðinlegustu holurnar. En af góðum holum þá er sextánda í Grafarholtinu af bakteigum skemmtilega töff.

Erfiðasta höggið? Annað höggið á fimmtándu í Grafarholtinu, u.þ.b. 200m á flugi, flötin er snepill sirka 10m breið og um 25m djúp, vatn fyrir framan og vítasvæði vinstra megin og ef slegið er og langt.

Ég hlusta á? Helgu mína.

Tónlist: Klassíska slagara frá áttunda áratugnum (lagalistar sem ég notast við í Golfklúbbnum og viðskiptavinirnir hafa ótal sinnum lýst ánægju sinni með … þó ekki eins oft og þeir hafa lýst ánægju sinni með hamborgarana okkar).

Besta skor: 67 af hvítum í Grafarholti, í suðaustan belgingi. Ég var í auraleik á móti John Drummond þáverandi golfkennara í GR, þetta var daginn eftir meistaramót og völlurinn þurr (harður og hraður). Ég vann hann með 12 höggum. Þetta er sumarið sem ég vann fyrsta flokkinn á Jaðri.

Besti kylfingurinn: Tiger

Golfpokinn:

Dræver: Á ekki dræver, hausinn á Titleist‘inum mínum sprak og ég fæ víst ekki nýjan – skítamál. Er að skoða hvað fer í pokann fyrir sumarið.

Brautartré: Titleist  917 F2 15° og 19°

Járn: Titleist AP2 918 4 til PW

Fleygjárn: Titleist SM7 Vokey 52°, 56° og 60°

Pútter: Titleist - Scotty Cameron Newport 2

Hanski: Titleist Perma-Soft eða Hirzl

Golfklúbburinn hefur verið vinsæll meðal kylfinga.