The Grove: Flott golfsvæði nærri London
Golfsvæði á Bretlandi þar sem í boði er golf og hótelgisting á sama staðnum eru mörg og eðlilega í misjöfnum gæðum. The Grove, sem er skammt frá London á sér langa sögu, nokkrar aldir aftur í tímann. Í byggingunni sem reist var á 16. öld, sem nú er hluti af glæsilegu Grove hóteli, þótti Viktoríu Englandsdrottningu gott að koma og eiga góðar stundir. Enskir jarlar og aristókratar voru líka tíðir gestir. Árið 2004 opnaði The Grove hótelið og tveimur árum síðar var golfvöllur opnaður. Það þótti við hæfi að halda heimsmót skömmu eftir opnun hans. Tiger nokkur Woods mætti á svæðið og skildi eftir sig spor. Ekki sömu og Viktoría drottning en söguleg spor samt. Mjög söguleg.
The Grove er eitt af betri golfhótelum Englands. Fimm stjörnu. Maður fær strax þá tilfinningu þegar maður mætir á staðinn. Þjónustan í stíl við það sem Viktoría drottning og vinir hennar hefðu viljað. Ekki alveg konungleg en nálægt því. Það er mikið lagt upp úr góðri þjónustu á þessum gamla og virðulega stað. Fáum okkur „high tee“ og drykk við hæfi í blíðunni. Við vorum mætt til að leika golf á The Grove og eiga góðar stundir á hótelinu. Og já, á fimm stjörnu svæðið var þegar við gengum inn á svæðið enski stórkylfingurinn Justin Rose (hefur verið nr. 1 og við topp heimslistans undanfarin ár) að ljúka við styrktarmót með vini sínum, írska söngvaranum Nigel Horan. Við fengum smá „star struck“ eins og tvær íslenskar golfkonur sem við hittum skömmu eftir að við komum á svæðið.
Fimm stjörnu fílingur
Það er fimm stjörnu fílingur á 217 hótelherbergjunum á The Grove og algerlega í stíl við stjörnurnar fimm sem hótelið ber. Allt innan dyra er þannig. Stórt flatsjónvarp, stórt rúm (king), Bose hljómtæki, minibar og fleira mætti nefna. Þá eru 3 hótelsvítur með tilheyrandi íburði og flottheitum.
Á hótelinu eru þrír veitingastaðir, Colette’s er sá flottasti, Glasshouse og Stables sem er nálægt fyrsta teig. Á Glasshouse er mjög skemmtilegt hlaðborð með alls kyns í boði öll kvöld og morgunverðurinn er að sjálfsögðu eins og vera ber á 5 stjörnu hóteli, mjög veglegur. Á Stables er hægt að fá bar-mat eftir golfhringinn ásamt drykkjum að vild að sjálfsögðu. Á stöðunum eru borð utan dyra. Þar er gaman að sitja í góðu veðri.
Þeir sem vilja gera meira en að fara í golf geta spókað sig um á The Grove og farið í sundlaugar, kíkt í ræktina eða lúxus heilsulind, „Sequuoa Spa“. Þá er hægt í góðu veðri að fara í sólbað og sund eða í göngu í nokkrum görðum við hótelið. Sem sagt, skemmtileg auka afþreying og lúxus í boði hvert sem litið er. Þá er auðvitað fjöldi salarkynna á The Grove þar sem hægt er að funda en líka all nokkrir staðir þar sem gaman er að setjast niður með drykk. Hótelið er fallegt og fjöldi listmuna er þar um allt.
The Grove er frábærlega staðsett um 30 mínútur í akstri frá Heathrow flugvelli og frá miðborg Lundúna.
Tiger mætti og tætti
En að golfvellinum. Þó hann hafi verið opnaður árið 2006 fær maður á tilfinninguna að hann sé miklu eldri. Umhverfið í Herefordskíri er magnað og völlurinn ber þess merki að vera hannaður af alvöru golfarkitekti sem hann jú er. Kyle Philips sem er þekktastur fyrir hönnun sína á Kingsbarns vellinum í St. Andrews í Skotlandi gerði alvöru golfvöll á The Grove. Fyrir Tiger Woods og félaga þá er hægt að leika af öftustu teigum á 6500 metrum en örvæntið ekki. Það eru mörg teigstæði á hverri holu og hver getur fundið lengd við sitt getustig. Þannig er hægt að njóta þessa skemmtilega og fallega golfvallar. En þar sem alvöru hönnuðir koma við sögu fáum við margar alvöru golfholur. Það er mikið landslag í flötunum og þær eru þekktar fyrir gæði. Þá eru hindranir á vellinum margar en gamla sagan gildir þar eins og annars staðar; góð högg gefa verðlaun. Slæm högg ekki.
Eftir frekar rólega byrjun á fyrstu braut koma gríðar sterkar brautir inn strax á 2., 3., 4. og 5. braut. Sú þriðja er ein sú erfiðasta, sérstaklega fyrir meðalkylfinginn sem á það til að lenda í vandræðum í innáhögginu á flötina. Stór vatnstorfæra tekur högg sem eru ekki nógu góð og sama má segja um 4. holuna. Hún er um 150-160 metrar, par 3 og þar er tjörn sem fyrir framan sem tekur bolta sem fljúga ekki vel af kylfuhausnum. Ekki mikill afsláttur í boði á þessum tveimur brautum. Fimmta brautiner líka alvöru. Flötin er mjó og í mjög miklu landslagi. Á þessari braut er gott upphafshögg mikilvægt. Annars bíður langt innáhögg og það er ekki auðvelt þegar flötin er svona mjó. Frekar löng par 4 hola sem reynir á alla kylfinga.
Þegar komið er á 9. brautina (sem var leikin sem 18. brautin í heimsmótinu) sem er par5 er gott að fá sér vatnssopa og skoða skilti við teiginn sem segir frá afrekum Tigers Woods á heimsmótinu 2006. Hann gerði sér lítið fyrir og fékk örn þrjá daga í röð og því til staðfestingar eru plattar á brautinni, allir á svipuðum slóðum, rúma 200 metra frá flöt. Kíkið endilega á þá og upplifið í huganum afrek þessa magnaða kylfings.
Fleiri góðar golfbrautir halda áfram á seinni níu holunum. Tíunda er í skarpri hundslöpp til vinstri og er góð byrjun á seinni hringnum. Þrettánda er skemmtileg par 3 braut sem liggur niður í móti og næstu brautir eru flottar. Lokakaflinn er góður með 16. holu sem par 3, 17. par 5 og 18. brautin par 4. Góð blanda.
Árið 2016 var British Masters mótið, hluti af Evrópsku mótaröðinni leikið á The Grove en eins og fyrr segir var heimsmót haldið á vellinum rétt eftir opnun. Þá er svæðið vinsælt hjá stærri fyrirtækjum sem halda mót. Þegar kylfingur.is var á staðnum var nýlokið pro-am móti þar sem Justin Rose og tónlistarmaðurinn Nigel Horan voru stóru númerin.
Á svæðinu er ágæt golfverslun, mjög gott æfingasvæði og nýjung sem er „Tour truck“ en þar er hægt að fara í kylfumælingu. Það er nett magnað að sjá trukkinn á svæðinu og enn magnaðara að slá í honum og sjá boltann fljúga inn á svæðið og geta skoðað nýjustu tölur úr Trackman í tölvunni. Þá er hins heimsþekkti pútt- og stuttaspilssérfræðingur, Dave Pelz með aðsetur á Grove. Það er auðvitað allt í göngufæri. Eftir hring er gott að setjast niður á veröndina og fá sér einn kaldan eða drykk við hæfi. Maturinn er mjög góður og fjölbreyttur á veitingastöðunum.
Sem sagt, klassagolfvöllur í stíl við 5 stjörnu hótel.