Varð betri í golfi með meiri líkamsrækt - fyrsti sigur Tómasar
Tómas Eiríksson Hjaltested vann Hvaleyrarbikarinn og stefnir á atvinnumennsku eftir háskólagolf
„Það var gaman að vinna í fyrsta skipti. Ég var kominn með góða forystu en þurfti að halda haus í lokin sem ég gerði þó síðustu níu holurnar hafi verið frekar erfiðar,“ sagði Tómas Eiríksson Hjaltested, GR, eftir sigurinn í Hvaleyrarbikarnum um síðustu helgi. Þetta var hans fyrsti sigur á stigamóti þeirra bestu.
Tómas náði forystu fyrsta daginn þegar hann setti nýtt vallarmet þegar hann lék fyrsta hringinn á sjö undir pari á Hvaleyrinni sem skartar nýjum og erfiðum brautum eftir breytingar. Jóhann Frank Halldórsson, GR, var annar fyrir lokahringinn, tveimur höggum á eftir og Breki Gunnarsson Arndal úr GKG sex höggum á eftir Tómasi. Á síðustu níu holunum var mikil spenna. Þegar þremenningarnir komu á 18. teig var Tómas með högg í forskot á félaga sína. Þeir fengu allir par á 18. holu og Tómas fagnaði sigri.
„Já, ég spilaði mjög vel fyrsta daginn og setti línuna frekar snemma síðan á öðrum hring lika. Að vera kominn 13 undir par eftir 28 holur var pínu strembið fannst mér og var ekki alveg tilbúinn í það andlega. Byrjaði aðeins og gefa eftir og hleypti öðrum inn í toppbaráttunna. Ég fór rólegur inn í lokahringinn, taldi mig vera kominn með næga reynslu til að klára dæmið sem ég og gerði þó svo ég hafi aðeins hikstað á síðustu níu holunum. Ég tapaði tveimur höggum á 11. braut þegar ég sló út í sjó í upphafshögginu en missti ekki hausinn og náði að klára dæmið. Ég þurfti að klára þokkalegt pútt á síðustu flöt til að vinna og það tókst.“
Hafa gaman
Tómas segir að markmiðin fyrir sumarið hafi ekki verið mjög há. „Ég var meira að hugsa um að hafa gaman úti á golfvelli. Það hentar mér best. Nú er það bara áfram gakk í háskólagolfinu en ég er á öðru ári í námi og golfi í Jacksonville í Flórída.“
Hvernig hefur það gengið?
„Námið er mjög fínt. Það er lögð meiri áherslu á að vinna vinnuna meira jafnt og þétt og færri próf. Sem þýðir að það setur minna stress á íþróttafólkið sem þurfa þá ekki að fara í próf kannski strax eftir mót.
Háskólagolfið er mjög skemmtilegt fyrirkomulag. Geggjuð stemning sem myndast á milli strákanna og flott leið fyrir krakka að komast í gott veður og æfa við goðar aðstæður allan veturinn. Mótin eru spiluð bæði í einstaklingskeppni og liða. Liðin setja upp 5 manna lið og gilda 4 bestu skorin. Mér hefur gengið upp og ofan en ég er að vinna í því að ná meira jafnvægi í minn leik.“
Hvað finnst þér um breytingarnar á Hvaleyrinni og standið á vellinum?
„Hvaleyrarbikarinn er alltaf geggjað mót og völlurinn alltaf í frábæru standi. Völlurinn er klárlega í besta standinu á Íslandi í dag og þessar breytingar gera seinni níu að mínu mati að einum erfiðustu seinni níu á landinu. Báðar nýju holurnarl, 15. og 16. braut eru mjög erfiðar á hvítum teigum.“
Lyftir oftar lóðum
Tómas er 22 ára og náði góðum árangri í unglingaflokkum en þetta var hans fyrsti sigur á mótaröðinni. Þá endaði hann í 2. sæti á stigalistanum sem er hans lang besti árangur.
Hann byrjaði tíu ára í golfi þegar hann fór með föður sínum á golfvöllinn. Var duglegur að spila og æfa í Básum. Tómas var líka í fótbolta en ákvað að snúa sér alveg að golfinu sem hann var ánægður í. En eitt af því sem Tómas hefur gert að undanförnu er að leggja meiri áherslu á líkamsrækt og hann segir að það hafi hjálpað sér mikið.
„Já, ég fer mikið í ræktina og ég finn mikinn mun á mér. Margir eru að kljást við einhver meiðsl en ég finn lítið fyrir því eftir að ég fór að stunda ræktina meira. Þetta hefur gefið mér auka kraft og í raun gjörbreytt mínum leik.“
„Já, ég fer mikið í ræktina og ég finn mikinn mun á mér. Margir eru að kljást við einhver meiðsl en ég finn lítið fyrir því eftir að ég fór að stunda ræktina meira. Þetta hefur gefið mér auka kraft og í raun gjörbreytt mínum leik.“
Ertu með atvinnumannadraum?
„Já, mig langar að spreyta mig á því eftir skólann. Ég tel mig hafa góðan leik og möguleika á að spilað með þeim bestu. Ég sé hvað bestu kylfingar í heimi eru að gera og tel mig eiga möguleika á að komast í þann hóp,“ sagði Tómas.
Lokapúttið fyrir sigrinum. Myndir frá golf.is