Fréttir

Teitur fékk teighögg í lærið af tíu metra færi frá Keflvíkingi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 10. júní 2024 kl. 07:15

Teitur fékk teighögg í lærið af tíu metra færi frá Keflvíkingi

Teitur Örlygsson var nýlega gestur í hlaðvarpinu Seinni níu sem fjallar um golf á léttum nótum. Teitur er körfuboltagoðsögn á Íslandi og varð alls tíu sinnum Íslandsmeistari með Njarðvík á ferli sínu. Hann er með um 16 í forgjöf en byrjaði heldur seint að spila golf eða ekki fyrr en árið 2018.

„Ég var auðvitað í vetrarsporti í körfunni og hefði alveg getað verið út í Leirunni á sumrin. Ég dauðsé eftir því núna að hafa ekki byrjað fyrr,“ segir Teitur sem er nú í 60 manna golfhópi kylfinga sem aðallega stendur saman af fyrrverandi leikmönnum í körfu- og fótbolta í Reykjanesbæ.

Í þættinum rifjar Teitur upp nokkur skemmtileg atvik frá golfferli sínum auk þess að ræða um sína aðalíþrótt sem er körfubolti. Fyrir þremur árum lenti Teitur í mjög óheppilegu atviki þegar hann var við leik á Hólmsvelli í Leiru með Keflvíkingnum og fyrrum körfuboltamanninum Fali Harðarsyni en hann var andstæðingur Teits í mörg ár í körfunni. 

„Falur drævaði einu sinni í löppina á mér. Við vorum staddir á 10. teig í Leirunni þar sem skúrinn er. Teigurinn var aðeins aftarlega og ég stóð við bekkinn. Hann drævaði í lærið á mér af svona 10 metra færi. Ég kláraði reyndar seinni níu en ég hélt fyrst að ég væri lærbrotinn. Þetta var stærsti marblettur sem ég hef séð og það var svona kúla á lærinu á mér allt sumarið. Ég á eftir að ná honum,“ sagði Teitur léttur og hló.

Hatton og Rose settust við borðið hjá Teiti

Teitur heldur mikið upp á evrópska kylfinga og sérstaklega upp á Rory McIlroy. Hann horfir mjög mikið á golf á PGA-mótaröðinni. „Ég held mikið upp á evrópska kylfinga. Ég skil ekki Íslendinga sem halda með Bandaríkjunum í Ryder-bikarnum. Ég er mjög hrifinn af Højgaard bræðrum og Åberg,“ segir Teitur sem fylgist mjög vel með erlendu keppnisgolfi.

„Ég verð vanalega ekki „starstruck“ þegar ég sé frægt fólk. Ég var eitt sinn í klúbbhúsinu hjá vinafólki í Lake Nona í Orlando. Þegar ég kom þar fyrst settust þeir Tyrrell Hatton og Justin Rose við hliðina á mér. Þetta eru auðvitað vinir mínir eftir að hafa verið inni í stofu hjá mér í 10-15 ár. Þetta var alveg geggjað,“ segir Teitur.

Logi Bergmann og Jón Júlíus Karlsson eru umsjónarmenn Seinni níu en í hlaðvarpinu er rætt um golf á léttum og skemmtilegum nótum. Alls eru komnir út 10 þættir af Seinni níu en gestir þáttarins til þessa eru meðal annars Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Halli Melló, Jakob Bjarnar og Gunnar Birgisson.

Alla þættina má nálgast á Spotify eða öðrum hlaðvarpsveitum.