Fréttir

Stenson sigraði í Bedminster
Henrik Stenson. Ljósmynd: John Jones/USA Today
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
mánudaginn 1. ágúst 2022 kl. 01:10

Stenson sigraði í Bedminster

Hinn sænski Henrik Stenson hóf vikuna á að vera sviptur fyrirliðanafnbótinni í Ryder bikarliði Evrópu en lauk henni á að taka við ávísun upp á 4 milljónir og 375 þúsund Bandaríkjadali. Stenson stóð uppi sem sigurvegari á þriðja móti keppnistímabilsins á LIV Golf Invitational, en mótið fór fram á Trump National vellinum í Bedminster í New Jersey.

Stenson lék hringina þrjá á 202 höggum (64-69-69) eða samtals á 11 höggum undir pari, tveimur höggum betur en Bandaríkjamennirnir Dustin Johnson og Matt Wolff.

Stenson var sviptur fyrirliðanafnbótinni eftir að hafa skrifað undir við LIV Golf en talið er að hann hafi fengið 50 milljónir Bandaríkjadala við undirskrift.

Í liðakeppninni var það lið 4 Aces sem sigraði á 25 höggum undir pari, átta höggum á undan liði Majesticks en Stenson leikur með liðinu. Hann fékk 375 þúsund Bandaríkjadali í sinn hlut sem leikmaður Majesticks fyrir annað sætið í liðakeppninni auk 4 milljón Bandaríkjadala fyrir sigurinn á mótinu.

Lokastaðan á mótinu