Sigurbjörn stigameistari fjórða árið í röð
Ólafsfirðingurinn Sigurbjörn Þorgeirsson varð stigameistari fjórða árið í röð á LEK mótaröð öldunga. Hann sigraði á síðasta stigamótinu og skaust upp fyrir Jón Karlsson sem var með forystu fyrir síðasta mótið.
Sigurbjörn endaði með 4447,67 stig, aðeins 29 stigum meira en Jón sem sýnir hvað keppni milli þeirra var jöfn. Þriðji í stigakeppninni var Hjalti Pálmason en hann varð Íslandsmeistari öldunga í ár.
„Auðvitað eru þetta stífar æfingar sem skiluðu þessum árangri og ákveðnin, trúin á sjálfa sig. Síðan verður maður að eiga góða að. Ef ég ætti ekki Rósu konu mína að þá væri ekki þessi árangur, hún er gjörsamlega frábær,“ sagði Bjössi í stuttu spjalli við kylfing.is en við greindum frá því nýlega að norðanmaðurinn náði besta árangri íslenskra öldunga á Evrópumóti landsliða 50 ára og eldri í Búlgaríu nýlega þegar hann endaði í 3.-4. sæti á tveimur undir pari.