Ryder fyrirliðinn sýndi hvað í honum býr
Bandaríkjamaðurinn Keegan Bradley átti ekki von á því að komast í tvö síðustu lokamótin í FedEx úrslitakeppni PGA mótaraðarinnar í Bandaríkjunum. Nú er hann eftir sigur helgarinnar meðal efstu manna fyrir lokamótið þar sem 30 kylfingar keppa.
Bradley sigraði á BMW mótinu, en það var annað af þremur lokamótunum. Hann var síðasti maður inn í 50 manna þátttakendamót og var búinn að afskrifa sig og á leiðinni heim. Á BMW mótinu lék hann síðan sitt besta golf í langan tíma og tryggði sér sigur á erfiðum Castle Pines golfvellinum í Coloradol. Hann átti högg mótsins á 17. braut (71. holu) en þá var hann með eins höggs forskot. Bradley var 200 metra frá stöng upp í móti og sló með 5-járni, eitt besta högg ferilsins. Boltinn endaði um 5 metra frá holu fyrir erni. Hann tvípúttaði og mátti síðan fá skolla á 72. holu en sigra samt á tólf höggum undir pari.
Hinn 44 ára Ástrali Adam Scott og hinn 24 ára Ludvig Aberg ásamt Bandaríkamanninum Sam Burns veittu honum harða keppni og enduðu höggi á eftir.
Þrjátíu efstu á FedEx listanum munu keppa um stærstu peningaverðlun ársins á East Lake vellinum í lok vikunnar.
Þetta var sjöundi sigur Keegans Bradley len hann var nýlega valinn fyrirliði Ryderliðs Bandaríkjamanna sem keppir við Evrópumenn á næsta ári á Black Page vellinum í New York.
Hér að neðan má sjá það helsta í myndskeiði frá lokadeginum, m.a. magnað högg Bradleys á 17. braut.