Robert Trent Jones jr. hannar stækkun Urriðavallar
Eitt þekktasta golfvallahönnunarfyrirtæki heims, Robert Trent Jones II, mun hanna nýjar níu holur í stækkun Urriðavallar. Fyrirtækið hefur hannað yfir 300 golfvelli í fimmtíu löndum í sex heimsálfum.
„Yfirhönnuður Robert Trent Jones fyrirtækisins er væntanlegur til Íslands á næstu dögum til að skoða Urriðavöll. Hann hefur hannað golfvelli í hraunlandi eins og Urriðavöllur er. Með eitt stærsta og virtasta hönnunarfyrirtæki í heimi golfsins teljum við að verðmæti Urriðavallar muni aukast og erum mjög spennt fyrir framhaldinu,“ sagði Kári Sólmundarson, formaður Golfklúbbsins Odds í samtali við kylfing.is. Kári ræddi þessi mál við við félagana í hlaðvarpinu Seinni níu.
Robert Trent Jones eldri hannaði eða kom að breytingum á yfir 500 golfvöllum. Sonur hans, Robert Trent Jones II tók við keflinu en hönnunarfyrirtæki hans hefur hannað marga fræga velli. Í þessari viku fer t.d. mót fram á DP mótaröðinni í Danmörku á Lübker Golf Resort. Kylfingur.is hefur fjallað um golfvallasvæðinð Costa Navarino í Grikklandi en Robert Trent Jones jr. hannaði Bay völlinn á því svæði. Margir Íslendingar hafa líka leikið Penalonga í Portúgal, Scandinavian í Danmörku og Bro Hof í Svíþjóð.
Feðgarnir hafa komið að hönnun um 800 golfvalla, allt frá árinu 1930. Sá yngri er nú um áttrætt.