Fréttir

Rikki safnar draumahöggum
Skálað fyrir fimmta draumahögginu.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 20. september 2024 kl. 22:52

Rikki safnar draumahöggum

Ríkharður Hrafnkelsson var frábær körfuboltaskytta með Snæfelli og Val þegar hann var ungur maður en eftir að þeim ferli lauk færðist hittnin yfir á golfvöllinn. Hann náði fimmta draumahögginu í dag þegar hann fór holu í höggi á 6. braut á heimavelli hans, Víkurvelli í Stykkishólmi.

Þetta var í annað sinn sem hann nær draumahögginu á 6. braut í Stykkishólmi. 

Fyrri draumahögg voru á 8. holu á Fróðárvelli 2001, 12.holu í Vestmannaeyjum 2012, 7.holau í Vestmannaeyjum 2013 og 6. holu á Víkurvelli 2016.

Rikki hefur verið einn af forvígismönnum klúbbsins undanfarna áratugi, m.a. sem formaður í aldarfjórðung en nú sést hann ýmist á sláttuvélinni eða í framkvæmdum við golfskálann. Kappinn er formaður vallar- og skálanefndar og passar upp á reikningana því hann er líka gjaldkeri klúbbsins.

Rikki hafði ríka ástæðu til að skála en svona einstaklingar eins og hann gera golfið á Íslandi betra.