Ragnhildur tryggði sér á lokastigið - Andrea höggi frá
Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur tryggði sér þátttökurétt á lokastigi fyrir LET Evrópumótaröð kvenna. Andrea Bergsdóttir sem keppti einnig á fyrra úrtökumótinu var höggi frá því að komast áfram. Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK vann sér þátttökurétt á lokastigið með góðum árangri á LET Access mótaröðinni, sem er næst sterkasta mótaröð kvenna í Evrópu.
Ragnhildur lék hringina þrjá á fjórum höggum undir pari, 72-70-70. Andrea var „inni“ fyrir lokahringinn en vantaði eitt högg upp á til að komast áfram. Hún lék hringina þrjá á 71-76-76.
Alls voru 248 leikmenn skráðir til leiks, sem er metþátttaka, og var keppt á fjórum völlum á Lalla Aicha golfsvæðinu í Marokkó. Til samanburðar voru 221 keppandi á 1. stigi úrtökumótsins í fyrra.
Á fyrra stigi úrtökumótsins er keppt um laus sæti á lokaúrtökumótinu sem fer einnig fram í Marokkó dagana 16.-20. desember. Guðrún Brá Björgvinsdóttir vann sér inn keppnisrétt beint á lokaúrtökumótið með góðum árangri á LET Access mótaröðinni í ár þar sem hún endaði í 21. sæti á stigalistanum.
Á lokastiginum keppa 154 konur og er hópnum skipt í tvennt og leikið á tveimur völlum, Royal Golf Marrakech og Al Maaden Golf Marrakech. Eftir fjóra hringi verður niðurskurður þar sem 65 efstu leika tvo síðustu hringina. Um 25 efstu kylfingarnir munu fá þátttökurétt á LET Evrópumótaröðinni.
Guðrún hefur verið með þátttökurétt á LET en síðustu tvö árin hefur hún verið í deildinni fyrir neðan, LET Access. Ragnhildur hefur keppt á LET Access undanfarin tvö ár.