Fréttir

Nýtur sín best að geta hjálpað öðrum með golfsveifluna
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 23. ágúst 2024 kl. 07:00

Nýtur sín best að geta hjálpað öðrum með golfsveifluna

NÆSTUR Á TEIG er sjálfmenntaður golfkennari og nýtur sín best þegar hann getur hjálpað kylfingum með sveifluna án kostnaðar, sjálfum sér og öðrum til góðs. Hann er hættur að vinna eftir bílslys og hefur því góðan tíma fyrir sitt golf og að hjálpa öðrum. Hann hefur aldrei farið til golfkennara en hefur eytt ómældum tíma í að kafa ofan í allt sem viðkemur golfi, allt frá hreyfingu, stöðu og hraða sveiflu, yfir í hvað veldur hinu og þessu sem úrskeiðis fer í golfinu. Hann hefur hjálpað hundruðum kylfinga á undanförnum árum. Kylfingur dagsins hefur „bara“ farið þrisvar sinnum holu í höggi! 
NÆSTUR Á TEIG er Gunnar Örn Örsted Hreiðarsson.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?

Ég byrjaði að snerta á golfi haustið 1998, lenti í bílslysi veturinn '99 og alvaran í golfi byrjaði frá og með 2001 í raun. Strákarnir úr hinu sportinu mínu (snóker) voru margir hverjir golfarar sem reyndu í nokkur ár að draga mig í þetta áður en ég gaf eftir, sé eftir að hafa ekki farið strax af stað því ekkert slær golfinu við, ég hef æft flest sport svo ég hef hugmynd af muninum.

Helstu afrek í golfinu?

100% þegar ég vann 1. flokk Meistaramóts GR 2011 en líklega er mesta „afrekið“ og það sem ég er í dag persónulega stoltastur af, er að hafa náð þeirri getu sem ég bý yfir spilinu í dag án kennslu eða þjálfara.

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?

Var að keppa í móti á GK vellinum að bruðlast út í hrauni... en ekki hvað, þegar mér skrikaði illa fótur svo ég rann í spíkat það hressilega að buxurnar fóru bókstaflega i tvennt svo ég varð að fara úr peysu sem ég var í og binda hana þéttingsfast sem auka belti til að þær myndu haldast uppi OG reyna að tryggja færri áhorfendur en nauðsyn var... hollið vægast sagt sprakk svo enginn gat slegið í nokkrar mínútur! Hollið á eftir náði okkur því fljótt og sprakk auðvitað líka þegar þau sáu ástandið á kallinum. Kláraði samt hringinn en beygði mig ekki að skoða pútt línur eftir þetta!

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?

Hmmm... Lék hring með Röggu Sig, einhverri okkar albestu í sögu kvennagolfsins (fjórfaldur íslandsmeistari  og líklega tvöfalt það GR meistari) fyrir mörgum árum síðan og sú lífsreynsla gaf manni í raun flest af því hungri og löngun til að bæta sig í sportinu sem hægt er að fá. Hún gaf svo mikið af sér á meðan hún rúllaði okkur félögunum upp skælbrosandi, og það af þá gulum teigum í Holtinu, stórkostleg manneskja og risa golfari að mínu mati.

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf? 

Nei langt frá því, nýt sportsins/augnabliksins of mikið til að ofhugsa neitt.

Hefurðu farið holu í höggi? Ef já, lýstu augnablikinu. Ef ekki, hvað er það næsta sem þú hefur komist?

Já ég bý svo vel að hafa farið 3x holu í höggi á mínum ferli.
2008 - hola #6 í Holtinu - 173 metra 6 járn í háu og léttu “draw”, sáum þetta ekki gerast með sólina í andlitinu, leituðum í nokkrar mínútur þar til einn úr hollinu sagði “kíktu í holuna.
2011 - hola #9 á Sjónum/Korpa - 134 metra 9 járn í léttu “draw” líka, lenti 3 metra fyrir framan og rúllaði rólega í.
2024 - hola #2 í Holtinu - 135 metra 9 járn, fullkomið högg, allt hollið kallaði boltann í á miðri leið, hann lenti 3 metra fyrir framan, tók litla bremsu í öðru skoppi og lak ofan í.

Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?

Bæta já... hmmm... er ekki með mikið af veikleikum „þannig séð“ ... en meiðsl hafa kostað mig nákvæmni með Driver og truflað alhliða sveiflu mína, svo ég þarf bara að vinna í að laga „swingið“ almennt, þá helst bæði „take off“ og „impact“ stöðu mína fyrir bæði meiri og stöðugri lengd.

Aldur: 55 ára, 16.ágúst.

Klúbbur: Golfklúbbur Reykjavíkur.

Forgjöf: 1,8

Uppáhaldsmatur: 

Hreinlega allt sem Chef Gummi eldar uppá Korpu, góð steik alltaf efst á blaði þó með salati, kartöflum & sveppa/pipar/bernaise sósu.

Uppáhaldsdrykkur: 

Ískalt Coca Cola eða Mix…er að LÆRA að drekka vatn loksins.

Uppáhaldskylfingur: 

Get ekki valið EINN kylfing...lít mjög upp til Ólafíu Þórunnar, Max Homa, Xander Schauffele, Nelly Korda & Lydia Ko bæði í sveiflunni sem og karakter.

Þrír uppáhaldsgolfvellir: 

Innlent =
Oddur
Korpan - Landið/Áin
Brautarholt/Kiðjaberg

Erlendis =
Louth Golf Club á Írlandi.
Normandy Hall Golf Course á Englandi.
Manor Golf Club, Laceby Englandi.

Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: 

Par 5 hola #6 í Grindavík býður upp í dans.
Par 3 hola #3 á Skaganum, lítil, falleg og lúmskt hættuleg.
Par 3 hola #8 núna en var áður hola #16, eyja-holan fallega í Borgarnesi.

Erfiðasta golfholan: 

Erfiðust ....hmmm... líklega blessuð Bergvíkin þegar vindur er sterkur & fer í hringi, maður getur staðið á teig með tíu hugmyndir af höggi án þess að treysta einu þeirra 100% .... hahaha ... góð og flott hola!

Erfiðasta höggið:  Plöggaður í upphalla í sandi 1 fet+ fyrir neðan fætur.

Ég hlusta á: 

Allt sem hægt er að "góla" með nema óperu og extra þungt rokk. Er 80's gaur alltaf.

Besta skor: 

67 á Korpu (-5) & 67 Grafarholti (-4)...  (spilaði þó á 66 í Holtinu í vor (par 69) þegar fjórða holan var par 3 vegna framkvæmda (venjulega par 5).

Besti kylfingurinn: Í dag klárlega Scottie Scheffler... ótrúlegur snillingur.

Golfpokinn:

Dræver: PING G430 10K Driver.
Brautartré:   TITLEIST TSR 2. í 3 & 5 tré, 15 & 18°.
Hybrid: TITLEIST TSR 2 Hybrid 18 & 24°.

Járn:  SRIXON FORGED II járn. 6-Pw.
Fleygjárn: 50-54-58° Cleveland ZIPCORE RTX 5.

Pútter: EVNROLL ER2 Blade pútter.

Hanski: Srixon & Kirkland Cabretta leður.
Skór: ECCO & ADIDAS skór.

Gunnar eyðir miklum tíma í Básum og aðstoðar kylfinga þar endurgjaldslaust.

Gunnar hefur „bara“ farið þrisvar sinnum holu í höggi.