Mögnuð upplifun hjá Íslandsmeistaranum í Mekka golfsins
„Þetta var mögnuð upplifun og reynsla að standa í golfmóti á fyrsta teig og leika svo lokaholurnar á Gamla vellinum í Mekka golfsins,“ segir Logi Sigurðsson, Íslandsmeistari í golfi en hann og Gunnlaugur Árni Sveinsson tók þátt í St. Andrews Links Trophy áhugamannamótinu nýlega.
Mótið er eitt stærsta og þekktasta mót áhugamanna í golfi. Þeir félagar komust ekki í gegnum niðurskurðinn á mótinu. Aðstæður voru mjög erfiðar fyrstu tvo keppnisdagana þar sem mikill vindur gerði keppendum erfitt fyrir. Logi lék á 78-81 en Gunnlaugur á 75-75. Aðeins níu keppendur enduðu mótið undir pari. Englendingurinn Seb Cave sigraði á sex undir pari.
„Mótið og allt í kringum það var mjög skemmtilegt. Vellirnir báðir (New og Old Course) í frábæru standi eins og linksarar eiga að vera. Þrátt fyrir aðstæðurnar var veðrið heldur betur að stríða manni, ég var að slá mjög vel á fyrsta degi en óheppinn með legur og einn týndan bolta. Það var erfitt var að koma sér í gott færi i 10-13m/s og sérstaklega á flötunum sem eru harðar og mjög hraðar. Á öðrum degi var slátturinn alls ekki góður og ég var ekki að sveifla kylfunni eins og ég á að vera að gera en svona er golfið. Þetta fer í reynslubankinn sem verður bara stærri með svona golfi. Markmiðið var að komast í gegnum niðurskurðinn og ég var að spila það vel rétt fyrir mót en eins og eg segi þá koma svona dagar. Það var mjög gaman að slá fyrsta höggið á báðum völlunum og það var ekkert stress var hjá mér. Ég var bara spenntur eins og lítill krakki að fara í golf í fyrsta sinn. Ég mun fara á annað stórt áhugamannamót um miðjan júlí, British Amateur Championship og stefni að því að standa mig vel,“ sagði Logi en hann og Gunnlaugur Árni fengu að fara inn í R&A klúbbhúsið en The Royal and Ancient Golf Club of St Andrews var stofnaður árið 1754. Í þessum virtasta golfklúbbi í heimi eru 2500 meðlimir. Byggingin (klúbbhúsið) er þekktasta tákn golfs í heiminum í dag.