Fréttir

Magnaður sigur á lokamótinu hjá N. Højgaard - Rory stigameistari
Nicolai og Rory með verðlaunagripina eftir sigrana í Dubai.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 20. nóvember 2023 kl. 14:29

Magnaður sigur á lokamótinu hjá N. Højgaard - Rory stigameistari

DP mótaröðinni 2022-23 lauk í Dubai um helgina þar sem fimmtíu efstu á stigalistanum kepptu um stærstu verðlaun ársins. Daninn Nicolai Højgaard gerði sér lítið fyrir og sigraði á lokamótinu en N-Írinn Rory McIlroy tryggði sér efsta sætið á mótaröðinni í fimmta sinn.

Højgaard ásamt tvíburabróðurnum Rasmus skutust fram á sjónarsviðið fyrir þremur árum síðan og afrekuðu það árið 2021 að vinna á tveimur mótum í röð á DP mótaröðinni, fyrst Rasmus í Sviss og síðan Nicolai viku síðar á Ítaliu. Nicolai var svo valinn í Ryderlið Evrópu í haust. Þar var hann yngsti kylfingurinn. Þetta var hans þriðji sigur á DP mótaröðinni og sá lang stærsti en allir bestu kylfingar Evrópu voru meðal keppenda á lokamótinu.

Nicolai átti frábæran lokasprett og lék best allra á síðasta hringnum, 64 höggum eða 8 undir pari, fékk fimm fugla á síðustu sex brautunum en hann var þrjú högg frá forystusauðnum þegar sex holur voru eftir. Englendingarnir Tommy Fleetwood og Matt Wallace ásamt Norðmanninum Victor Hovland enduðu í 2.-4. sæti.

Nicolai fékk  tæplega hálfan milljarð fyrir sigurinn og skaust upp í 2. sætið á DP stigalistanum. Hann vann sér einnig inn þátttökurétt á PGA mótaröðinni en fimmtán efstu náðu því. Það er í fyrsta skipti sem efstu kylfingar á DP fá þátttökurétt á PGA í Bandaríkjunum en það er hluti af nánara samstarfi mótaraðanna. Rasmus sem vann sitt fjórða mót á DP röðinni sigraði á Himmerland mótinu í sínu heimalandi í júlí. Hann endaði einu sæti frá PGA þátttökurétti fyrir árið 2024.