Fréttir

Magnað golf hjá Dananum - enn bregst pútterinn hjá Rory
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 16. september 2024 kl. 12:16

Magnað golf hjá Dananum - enn bregst pútterinn hjá Rory

Daninn Rasmus Højgaard vann magnaðan sigur og hreinlega stal titlinum af heimamanninum og stórstjörnunni Rory McIlroy á Írska meistaramótinu á DP mótaröðinni en leikið var á hinum heimsþekkta Royal County Down velli í Norður Írlandi.

Það stefndi flest í sigur hjá Rory og hann var með alla áhorfendur með sér í heimalandinu sem studdu hann vel. Hann var með tveggja högga forskot þegar komið var fram í seinni níu holurnar á lokahringnum. Daninn var skammt á eftir ásamt fleirum í toppbaráttunni en Højgaard lék seinni níu holurnar á fimm undir pari og var í þvílíkum gír á þessum erfiða golfvelli. Hann vippaði ofan í á 10. holu úr karga, setti langt pútt utan við flöt ofan í á 15. holu og setti glompuhögg á 17. holu líka ofan í. Hann fékk fugl á síðustu þremur. Rory missti stutt pútt fyrir pari á 17. og þurfti síðan að fá örn á síðustu holu til að jafna við Danann. Fimm metra pútt rann rétt framhjá holu. Vonbrigði með pútterinn halda áfram hjá Rory.

Þetta var fimmti sigur danska tvíburans en Nocolai bróðir hans hefur keppt á PGA mótaröðinni á árinu. Þeir tveir komufram á sjónarsviðið árið 2019 þegar Rasmus vann á DP mótaröðinni í fyrsta sinn. Bróðir hans fylgdi honum eftir og var síðan valinn í Ryderlið Evrópou.

Ítalinn Matteo Manassero endaði í 3. sæti en hann hefur verið að finna fjöl sína á nýjan leik en Matteo var talinn einn efnilegasti kylfingur heims fyrir tíu árum síðan þegar hann vann sitt fyrsta mót á Evrópumótaröðinni aðeins 17 ára gamall.

Lokastaðan.

Innáhöggið og púttið hjá Rory á 18. flöt