Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Logi góður í Leirunni og varð klúbbmeistari
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 17. ágúst 2025 kl. 12:17

Logi góður í Leirunni og varð klúbbmeistari

Logi Sigurðsson varð klúbbmeistari Golfklúbbs Suðurnesja og sigraði örugglega í meistaraflokki karla með ellefu högga mun en mótinu lauk á Hólmsvelli í gær. Mjög góð þátttaka var í mótinu og völlurinn í frábæru standi.

Logi byrjaði mótið með látum þegar hann sló upphafshöggið í stöngina á fyrstu holu sem er par 4 og setti svo ofan í fyrir erni. Hann lék fyrsta hringinn á 64 höggum, 7 undir pari sem er höggi frá vallarmeti Gunnlaugs Árna Sveinssonar sem hann setti á Íslandsmótinu í fyrra.

Logi endaði mótið á sex undir pari, 278 höggum. Annar varð Sveinn Andri Sigurpálsson á +5 og þriðji varð Péur Þór Jaidee á +9.

Örninn 2025
Örninn 2025

Í 1. flokki karla skilaði góður lokakafli Davíðs Jónssonar sigri eftir harða baráttu við Óskar Halldórsson sem endaði tveimur höggum á eftir.

Róbert Helgi Ævarsson sigraði í 2. flokki karla en þar var mjög spennandi keppni. Róbert var höggi betri en Bragi Jónsson og Guðmundur J. Ólafsson.

Í 1. flokki kvenna sigraði Bylgja Dís Erlingsdóttir og Linda Hlín Heiðarsdóttir var best í punktakeppni kvenna.

Í punktakeppni karla 65+ sigraði Hafsteinn Ögmundsson.