Hulda og Tómas best á Hvaleyrinni
Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar og Tómas Eiríksson Hjaltested úr Golfklúbbi Reykjavíkur sigruðu í Hvaleyrarbikarnum sem lauk í Hafnarfirði í dag. Mótið var lokamótið á stigamótaröð GSÍ 2024.
Hulda Clara setti þar punktinn yfir i-ið á glæsilegu sumri hjá henni hér heima því hún varð einnig Íslandsmeistari í síðasta mánuði og sigurinn í Hvaleyrarbikarnum tryggði henni einnig stigameistaratitilinn.
Hulda lék á 76, 73 og 76 höggum. Hún tók forystuna á öðrum keppnisdegi og sigraði með fimm högga mun þegar uppi var staðið. Mosfellingarnir Eva Kristinsdóttir og Berglind Erla Baldursdóttir komu næstar. Þær léku báðar á 80 höggum í dag og hefðu þurft að gera betur á lokakaflanum í dag til að þjarma að Huldu sem sigraði í Hvaleyrarbikarnum annað árið í röð.
Eva lék 16. holuna, sem er ný par 5 hola, á 8 höggum í dag og það reyndist dýrt. Á 16. brautina má segja að sameinaðar hafi verið tvær brautir, gamla tíunda og gamla ellefta, sem voru par 3 og par 4 holur. Brautin var tekin í notkun í sumar.
Berglind Björnsdóttir úr GR fór holu í höggi í mótinu. Sló hún draumahöggið á 12. holunni á öðrum keppnisdegi.
Tómas fékk fljúgandi start á fyrsta keppnisdegi þegar hann setti vallarmet á 65 höggum. Forskotið minnkaði þegar leið á mótið en Tómas hélt velli og sigraði með eins höggs mund. Hann lék samtals á 5 undir pari og hringina þrjá á 65, 71 og 75 höggum.
Breki Gunnarsson Arndal úr GKG og Jóhann Frank Halldórsson úr GR komu næstir. Breki lék á 72, 69 og 71 höggi en Jóhann á 70, 68 og 74. Alls voru sjö kylfingar undir pari samtals í karlaflokki en engin í kvennaflokki.
Stigameistari karla varð Aron Snær Júlíusson úr GKG sem einnig er Íslandsmeistari og varð hann stigameistari í annað sinn.