Hjón fóru holu í höggi í sama hringnum í Þorlákshöfn
Golfsumarið byrjaði vel hjá hjónunum Páli Ingvarssyni og Hólmfríði M. Bragadóttur úr Golfklúbbi Reykjavíku en þau fóru holu í höggi á sama golfhringnum á Þorláksvelli í gær.
Sagt er frá þessu á Facebooksíðu klúbbsins:
„Sá fáheyrði atburður varð á Þorláksvelli Golfklúbbs Þorlákshafnar síðdegis í dag, laugardag, að hjón fóru holu í höggi, bæði tvö, á sama hringnum. Páll Ingvarsson reið á vaðið á tíundu holu vallarins, sem er par-3, er hann sló teighögg sitt beint í holu, af rúmlega 120 m færi, við mikla kátínu hans, eiginkonu hans Hólmfríðar M. Bragadóttur, og nærstaddra.
„Við vorum einmitt að gantast með þetta, eftir höggið mitt, að það væri nú gaman ef Hólmfríður næði þessu líka,” segir Páll. Viti menn, um klukkustund síðar lék Hólmfríður sama leikinn, þá á 15. holu, einnig par-3.
Hólmfríður er enginn aukvisi þegar draumahöggið er annars vegar. Þetta er í fjórða sinn sem hún fer holu í höggi, en saman hafa þau hjónin stundað golfíþróttina í hartnær 18 ár. Þau eru bæði í Golfklúbbi Reykjavíkur. Hólmfríður er með 22 í forgjöf og Páll 19.
Samkvæmt vefleitarvélum eru líkur á holu í höggi u.þ.b. einn á móti tólf þúsund og reiknar gervigreindin að líkur á afreki Hólmfríðar og Páls geti legið nærri 1 á móti 5,7 milljónum. Sé tillit tekið til fjölda árlegra golfhringja á Þorláksvelli, þá mun þetta afrek hjónanna tæpast endurtaka sig á vellinum næstu aldirnar.
Frá Þorláksvelli.