Haraldur Franklín áfram í Kína
Haraldur Franklín Magnús komst í gegnum niðurskurðinn á Hangzhou mótinu á Áskorendamótaröðinni í Kína. Hann freistar þess að færast upp töfluna í næstu tveimur hringjum til að komast í lokamót mótaraðarinnar.
Haraldur lék fyrstu 18 holurnar á þremur undir pari en annan hringinn á pari sem dugði til að komast í gegnum niðurskurðinn, 69-71.
Haddi sagði fyrir mótið að hann ætlaði að leika ákveðið og það er það sem hann þarf að gera til að enda meðal efstu manna svo hann færist upp stigalistann en hann var í 62. sæti fyrir mótið en hann þarf að vera meðal efstu fjörutíu og fimm. Nái hann því ekki fer hann á 2. stig úrtökumóta sem verða um mánaðarmótin á Spáni.