Guðrún Jóna í 4. sæti á Opna Enska mótinu - valin í kvennalandsliðið
Guðrún Jóna Þorsteinsdóttir, tvítugur íslenskur kylfingur endaði í 4. sæti á Opna Enskaáhugamannamótinu sem lauk 20. júní á Stoneham golfvellinum í Englandi. Guðrún endaði á einu höggi yfir pari en var í toppbaráttunni fram á síðustu holur.
Guðrún byrjaði mótið með miklum látum en hún lék fyrstu sex holurnar í fyrsta hring á sex undir pari, 31 höggi. Henn gekk hins vegar illa á seinni níu holunum sem hún lék sjö yfir pari. Hún missti þó ekki dampinn við það og lék vel áfram í næstu hringjum og var skammt frá efsta sætinu fram á síðustu níu holurnar. Frábær frammistaða hjá henni á þessu þekkta áhugamannamóti í Englandi. Hún var síðan valin í íslenska kvennalandsliðið sem er á leið á Evrópumót 9. júlí nk.
Guðrún Jóna býr hjá foreldrum sínum í Exeter en þar er móðir hennar, María Guðrún Nolan, framkvæmdastjóri á East Devon golfvellinum. Guðrún flutti til Englands með foreldrum sínum árið 2010 og hefur verið dugleg með kylfurnar frá unga aldri. María móðir hennar er dóttir Aðalheiðar Jörgensen og Englendingsins Johns Nolan sem kenndi golf hjá Golfklúbbi Reykjavíkur fyrir margt löngu síðan við góðan orðstýr. Guðrún Jóna stundar núna nám í afbrotafræði í háskóla í Arkansas í Bandaríkjunum.