Fréttir

Forskot úthlutar styrkjum til atvinnukylfinga
Mánudagur 27. febrúar 2023 kl. 21:28

Forskot úthlutar styrkjum til atvinnukylfinga

Forskot, afrekssjóður úthlutaði í 12. sinn styrkjum til íslenskra atvinnukylfinga sem reyna fyrir sér á hinum ýmsu mótaröðum atvinnukylfinga.

Í tilkynningu frá Forskoti segir:

Forskot, afrekssjóður, mun styðja við bakið á alls sex atvinnukylfingum á árinu 2023. Forskot hefur frá árinu 2012 úthlutað styrkjum til afrekskylfinga og er úthlutunin í ár sú 12. í röðinni. Að sjóðnum standa: Eimskip, Valitor, Íslandsbanki, Icelandair, Vörður tryggingar, Bláa Lónið og Golfsamband Íslands.

Frá stofnun sjóðsins hefur markmiðið að gera styrkþegum auðveldara fyrir að æfa og keppa við bestu skilyrði í samræmi við það sem gerist á alþjóðlegum vettvangi í golfíþróttinni.

Axel Bóasson, Bjarki Pétursson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Haraldur Franklín Magnús og Ragnhildur Kristinsdóttir fá úthlutað úr sjóðnum í ár.

Markmiðið með stofnun Forskots afrekssjóðs árið 2012 var að búa til reynslu og þekkingarbrunn sem skili sér til kylfinga framtíðarinnar og ungir kylfingar geti litið til í sínum framtíðaráætlunum.

Ríkar kröfur eru gerðar til þessara íþróttamanna um ráðstöfun styrkjanna. Ber þeim að leggja fram æfinga- og keppnisáætlanir auk fjárhagsáætlunar fyrir verkefni sín auk þess sem gerðir eru sérstakir samningar við hvern kylfing um að þeir virði reglur Íþrótta- og Ólympíuhreyfingarinnar.

Þeir kylfingar sem fá úthlutað úr Forskoti afrekssjóði eru sterkar fyrirmyndir. Það að eiga afreksmenn í íþróttum er stór og mikilvægur þáttur í því að fá börn og unglinga til að sinna íþróttum. Því er litið á sjóðinn sem mikilvægt skref til að efla íþróttir barna og unglinga og hvetja þau til dáða.