Fjögurra manna fjölskyldan öll farið holu í höggi á sama vellinum
Gæti verið að þau séu fyrsta fjölskyldan sem farið hefur holu í höggi á sama golfvellinum, er spurt á Facebooksíðu Golfkúbbs Öndverðarness en fjórir meðlimir sömu fjölskyldunnar hafa öll farið holu í höggi á Öndverðarnesvelli.
Pabbinn, Ólafur Jónsson var fyrstur úr fjölskyldunni til að komast í Einherjaklúbbinn en hann fór holu í höggi á þáverandi 6. braut með 5-tré af 179 metra færi. Þetta var fyrir 36 árum eða í ágúst 1988 en Óli var einn af forvígismönnum klúbbsins og tók mikinn þátt í uppbyggingarstarfi vallarins og klúbbsins. Kristin Guðmundsdóttir, kona hans, er aldeilis liðtækur kylfingur og hefur þrisvar náð draumahögginu en á Öndinni gerðist það í júlí 2005, á 2. holu með 7-járni. Börnin þeirra Jason og Baddý bættust í draumahöggshópinn í sumar. Jason Kristinn 13. júlí þegar hann náði draumahögginu 13. júlí á 2. holu með 9-járni og systir hans, Baddý Sonja Breidert fór holu í höggi á 18. braut með 8-járni, mánuði síðar.
Kylfingur.is er ekki með svarið við því hvort þau séu eina fjölskyldan sem hefur öll farið holu í höggi á sama golfvellinum, líklega ekki - en þær eru þó sennilega ekki margar.
Eins og fyrr segir var Óli Jóns og Kristín kona hans dugleg í uppbyggingu Öndverðarnesvallarins en þau eru hvergi hætt því þau tóku saman 50 ára söguvef Golfklúbbs Öndverðarness og hægt er að nálgast þessa skemmtilegu umfjöllun á heimasíðu klúbbsins.
Baddý alsæl með draumahöggið. Á neðri myndinni má sjá gamla mynd úr sögusafninu sem Óli og Kristín tóku saman.