Fréttir

Fimm ernir á 36 holum
Laugardagur 21. janúar 2023 kl. 06:54

Fimm ernir á 36 holum

Nýliðinn Davis Thompson fékk þrjá erni á öðrum hringnum á American Express mótinu. Samtals er hann kominn með fimm erni á fyrstu tveimur hringjunum og hefur forystu á 18 höggum undir pari. Hann fékk þrjá erni, fjóra fugla og tvo skolla á öðrum hringnum sem hann lék samtals á 8 höggum undir pari á Nicklaus Tournament vellinum á PGA West. Davis er 23 ára nýliði á PGA mótaröðinni sem lék háskólagolf í Georgíu. Hann er tveimur höggum á undan Spánverjanum John Rahm sem lék annan hringinn einnig á 64 höggum.

„Ég var í góðri stöðu eftir teighöggin á par 5 holunum á náði að koma boltanum nálægt í innáhögginu og púttin fóru niður. Það er mjög ánægjulegt að ná i svona marga erni. Ég er að spila mjög vel. Hitti brautir, hitti flatir og sé púttlínurnar vel. Það gengur allt upp og ég ætla að reyna halda því þannig áfram“ sagði Davis. 

Aðeins einum öðrum kylfingi hefur tekist að fá 5 erni á tveimur hringjum á American Express mótinu, en það gerði Scott McCarron árið 1995.  Aðrir leikmenn sem hafa náð því að fá 5 erni í 72 holu móti frá 1983 eru Justin Rose á RBC Canadian Open 2022, Dustin Johnson WGC FedEx St.Jude árið 2020, Austin Cook Barbasol Championship 2020, Keegan Bradley og Brandt Snedeker í RBC Canadian Open 2018 og Davis Love í Sony Open 1994. Dustin Johnson var sá eini af framangreindum sem vann mótið sem leikið var í.

John Rahm sem lék annan hringinn í röð á 64 höggum, er í öðru sæti á 16 undir pari: „Mér líður vel á vellinum og hef mikið sjálfstraust. Ég er í góðri stöðu og held vonandi áfram að leika vel“.

Á mótinu eru 10 leikmenn af 20 efstu á heimslistanum. Scottie Scheffler sem er nr. 2 og Xander Schauffele sem er nr. 7 eru meðal fimm leikmanna sem deila 9 sætinu á  11 undir pari.