Fréttir

Fáir Einherjar nálægt því að vinna Benz
Hressir Einherjar hittust á Nesvellinum og reyndu að næla sér í Mercedes Benz. Mynd frá Einherjaklúbbnum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 8. september 2024 kl. 20:42

Fáir Einherjar nálægt því að vinna Benz

Sextíu og fjórir Einherjar reyndu við draumahöggið þegar þeir hittust á Nesvellinum í sérstöku móti Einherjaklúbbsins en í þann eftirsótta klúbb komast þeir sem hafa farið holu í höggi. Í verðlaun var Mercedes Benz frá Öskju með því að fara holu í höggi og er skemmst frá því að segja að nýbakaðir Einherjar voru ekki mikið að ógna holunni en  slegið var á 9. holuna á Nesinu sem mældist 105 metrar.

Aðstæður voru erfiðar, stífur hliðarvindur og árangurinn var í takti við veðrið. Aðeins hittu sex kylfingar inn á flöt en næstur holunni og Benz-anum flotta var Svavar Geir Svavarsson, 112 sm. Frá holu. Hilmar Þór Karlsson var annar en bolti hans endaði 141 sm. frá holu.

Allir þátttakendur fengu teiggjöf frá Öskju og voru leystir út með viðurkenningaskjali og pokamerki til minningar um að hafa farið holu í höggi frá Einherjaklúbbnum, segir á Facebook-síðu Einherjaklúbbsins.