Draumahögg með hjálp í risamóti kvenna í Wales
Englendingurinn Mimi Rhodes átti högg mótsins á AIG Opna breska kvennamótinu á Royal Portchawl í Wales sem lauk í dag. Boltinn hennar flaug inn á flöt og fór af öðrum bolta sem var rétt við holu og ofan í. Magnað draumahögg með hjálp!
Rhodes sló á 5. holu sem var 190 metrar, eftir hinni áströlsku Stephanie Kyriacou sem var með henni í ráshópi og hafði sett höggið sitt hálft fet vinstra megin frá holu. Boltinn hjá Rhodes flaug beint og skoppaði inn á flöt, rann í sömu línu Kyriacou en fór svo af hennar bolta og í holu. Eftir mótið sagðist Rhodes ekki hafa vitað af því að bolti hennar fór af bolta Stephanie í holu.
Rhodes endaði í 19. sæti í mótinu en Stephanie í því áttunda. Sigurvegarinn var hin japanska Miyu Yamashita frá Japan sem lék frábært golf fyrstu tvo dagana þegar hún var 11 undir pari. Hún lék næstu tvo hringi líka vel en „bara“ á parinu og það dugði henni til sigurs. Hin enska, Charley Hull var fimm undir pari á lokahringnum og komin í 2. sætið en fataðist flugið á þremur síðustu holunum og náði ekki að ógna hinni japönsku. Þetta er í fjórða sinn sem hún endar í 2. sæti á risamóti en hún hefur aldrei hampað risatitli. Hull endaði í 2. sæti með annarri japanskri stúlku, Minami Katsu, þær tvær voru á -9 en Yamashita á -11.
Hér má sjá þetta flotta draumahögg á lokadegi á AIG Opna breska.
INSANE HOLE-IN-ONE! 🤯
Mimi Rhodes with one of the CRAZIEST aces you’ll ever see ‼️#AIGWO pic.twitter.com/vQfo6N4m0H