Bjóða smit gegn vægu gjaldi - súperhögg hjá Sigga Sig á Spáni
Sigurður Sigurðsson, Íslandsmeistari 1988 og kylfingur úr Golfklúbbi Suðurnesja náði skemmtilegu draumahöggi á 18. holu á Nova S. Petri golfvellinum á Spáni í vikunni. Þetta var sannkallað súperhögg á 18. holu hjá Sigga Sig.
„Við vorum að spila Texas scramble á A-vellinum á Novo Sankti Petri. Það var frekar þungskýjað og svo kom þvílík rigning síðustu fjórar holurnar og þegar við vorum komin á flöt á þeirri 18. var okkur tjáð að við gætum hætt leik vegna veðurs. Þá sögðu meðspilarar mínir að við ættum að klára síðustu holuna, það yrði bara hámark 3 högg á henni.
Rétt tæplega 170 metrar í holu í grenjandi rigningu og mótvindi, öll hundblaut og ég ákvað að taka 21 gráðu blending og negldi í boltann. Þegar hann fór að stað og var að lenda sagði ég að þetta væri bara spurning um lengdina, flötin er aðeins fyrir ofan og við sáum ekki hvar boltinn endaði. Ég keyrði að flötinni og sá engan bolta, ekki einu sinni fyrir aftan flötina. Ég beið eftir meðspilurunum Sigrúnu og Palla og tók smá myndband þegar ég nálgaðist holuna. Og þegar ég sá elsku boltann ofan í þá kom töluverður hrollur, ég trúði þessu ekki. Svo skemmtilegta vill til að daginn eftir gerði Jón pabbi Valdísar Þóru sér lítið fyrir og fékk holu í höggi á 6. holu á B-vellinum við mikinn fögnuð hópsins.
Við Jón höfum ásamt mökum setið saman öll kvöld og borðað saman og núna geta ferðafélagar fengið sæti með okkur og smitast gegn vægu gjaldi,“ sagði Sigurður sæll í stuttu spjalli frá Spáni.
Þetta er í annað sinn á löngum golfferli Sigurðar sem hann fer holu í höggi. Það voru rétt rúmlega þrjátíu ár síðan hann gerði það síðast, nánar tiltekið í meistaramóti Golfklúbbs Suðurnesja 1994 en þá náði hann draumahögginu á 16. braut á hans heimavelli, Hólmsvelli í Leiru í fyrsta hring á meistaramóti.
Blautir kylfingar á 17. braut eftir draumahögg Sigga Sig.